Endurlit: Mars Attacks!

Mun slakari en mig minnti. Ég dáði Mars Attacks og hló vel yfir henni sem krakki en í dag finnst mér hún virka ójöfn, ófyndin, og mun lágstemmdari en maður myndi búast við frá Tim Burton og vinum hans á tíunda áratugnum. Mér líður eins og þetta hafi átt að vera skopstæling en ég er ekki viss hvernig eða hvaða myndum er aðallega verið að gera gys að. skopstælingin flakkar linnulaust milli áratuga vísindaskáldskapsmynda og útkoman er fáránlega troðin og ógrípandi heild.

Mars Attacks reynir of mikið en tekst fátt. Margar persónur eru kynntar til sögu, túlkaðar af stjörnupríddum leikhóp, hver og ein spilar sinn hlut í söguþræðinum en persónurnar stangast oft á við hlutverk hvors annars. Sumar persónurnar eru alvarlegar, aðrar skrípalegar, og sumar hafa frekar sjálfstæðar sögur sem eru síðar lauslega tengdar inn í atburðarrásina. Hlutverkamisræmið skapar því miður mikla óreiðu í tón og myndin þjáist heilmikið fyrir það. Hér hefði verið best að skera niður helming persónanna (þá sérstaklega alla frá Vegas) og leggja meiri einbeitni í hvernig rússíbani þessi mynd átti að vera. Myndina langar að skemmta öllum en hún hittir sjaldan í mark.

Reyndar er misræmi í persónusköpun og söguáherslu ekki aðal vandinn, því tónn myndarinnar er gjörsamlega út um allt. Aðalmarkmið Mars Attacks er augljóslega að skemmta þér með skrípalátum en stundum reynir myndin að vera alvarleg og þá skítur myndin bæði fjörið og sjálfa sig í báða fætur. Fyrir vikið verður myndin svo óeinbeitt og ruglandi að hún virkar skrípaleg en samt eitthvað svo leiðinleg.

Það bætir ekki úr skák hversu óvönduð heildin virðist, sem er algjör synd því Mars Attacks er full af flottum og fyndnum hugmyndum. Handritið er troðið með tómu lofti, leikararnir eru á sjálfstýringu, og tæknivinnslan er óáhugaverð. Einnig er kímnigáfa myndarinnar ansi óáhugaverð og samanstendur aðallega af fimmaurabröndurum og gríni sem hefur heppnast mun betur í eldri myndum. Það sem heppnast best er leikmyndahönnunin, en þar tekst tón myndarinnar að skila sér til áhorfandans og tekst alltaf að heilla eða ýta undir grín og aðstæður.

Tölvubrellurnar hafa elst illa og ég er viss um að þær hafi virkað áhrifalitlar á sínum tíma. Jafnvel ef maður hefur það í huga að síðasta mynd Burtons var um Ed Wood þá virka brellurnar ekki skemmtilega kjánalegar eins og í t.d. Plan 9 from Outer Space– brellurnar eru einhverstaðar á jaðri þess að vera slakar en samt sleppa þær rétt fyrir horn.  Hreyfingar marsbúanna eru vægast sagt skrítnar. Stundum virka þær en oft er eins og kvikunardeildin hafi ekki fengið nægan tíma til vinnslu, þannig að hreyfingarnar eru ekki í samræmi við flötinn sem marsbúarnir ganga á.

Slök gamanmynd sem reynir allt of mikið á óraunhæfum tíma. Ekki alslæm (amman og lausnin á innrásinni fengu mig til að brosa ansi breitt) en samt eitthvað svo leiðinleg og merkilega ógrípandi kaotík þrátt fyrir flott útlit og viðeigandi leikmyndahönnun. Persónur eru kynntar og drepnar án mikils áhuga og innrásin hefði getað orðið heilmikið fjör en fékk mig sjaldan til að gera meira en geispa og athuga hvað tímanum leið. Meiri metnaður og augljós fínpússun hefði gert myndinni mikinn greiða, en eins og stendur er Mars Attacks hvorki kjánalega heillandi né sérstaklega fyndin.

(3/10)