Allt síðan tölvuárás var gerð á Sony í Bandaríkjunum, þar sem í kjölfarið fjölda trúnaðarupplýsinga var lekið, þar á meðal innihaldi tölvupósta sem innihéldu upplýsingar og vangaveltur um mögulegar ráðningar í hin ýmsu hlutverk í hinar ýmsu bíómyndir, hafa menn verið að ræða um breska Luther leikarann Idris Elba, sem næsta James Bond. Sjálfur hefur Elba ekkert tjáð sig um málið, eða þar til hann tjáði sig á Twitter í vikunni:
„Á ekki 007 að vera myndarlegur? Ég er ánægður að þið haldið að ég eigi möguleika! Gleðilegt nýtt ár allir,“ sagði Elba og lét fylgja með mynd af sjálfum sér.
Núverandi James Bond, Daniel Craig, hefur samning um eina Bond mynd til viðbótar þeirri sem nú er í vinnslu, Spectre.
Umræðan um Elba sem Bond fór af stað þegar tölvupósti frá Amy Pascal forstjóra Sony í Bandaríkjunum var lekið, en í honum stóð: „Idris ætti að vera næsti Bond.“
Talið er að Pascal hafi verið að senda póst á Elizabeth Cantillon, fyrrum yfirmann hjá Columbia Pictures – sem dreifir Bond myndunum.
Fyrr í vikunni sagði bandaríski íhaldsmaðurinn Rush Limbaugh í spjallþætti sínum að höfundur James Bond, Ian Fleming, hafi skapað Bond sem hvítan mann frá Skotlandi, og því gæti persónan ekki verið svört. „Þannig er James Bond ekki, og ég veit að það verður örugglega flokkað sem kynþáttahatur að einu sinni benda á þetta,“ sagði hann.
Elba, sem er 42 ára, hefur áður sagt að hann hefði áhuga á hlutverkinu.
Á Reddit AMA spjalli í septmeber sl. svaraði hann spurningu aðdáanda síns um hvort hann væri til í að taka að sér hlutverkið og sagði: „Já, ef mér væri boðið það, algjörlega.“