Nýjasta kvikmynd Baltasar Kormáks, Eiðurinn, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni San Sebastian hátíðarinnar. San Sebastian hátíðin er ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum og því um mikinn heiður að ræða. Hátíðin fer fram í Donostia-San Sebastián á Spáni frá 16. – 24. september.
Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands segir að Eiðurinn mun keppa um Gullnu Skelina, aðalverðlaun hátíðarinnar sem eru veitt fyrir bestu mynd. Myndin verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem hefst 8. september. Eiðurinn verður frumsýnd hérlendis þann 9. september, um sömu helgi og heimsfrumsýningin fer fram í Toronto.
Eiðurinn segir af hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann, koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.
Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handritið að Eiðinum ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Magnús Viðar Sigurðsson og Baltasar Kormákur framleiða myndina fyrir RVK Studios.
Í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur, Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Óttar Guðnason sér um stjórn kvikmyndatöku, klipping er í höndum Sigvalda J. Kárasonar og Hildur Guðnadóttir semur tónlist myndarinnar.
Árið 2002 tók önnur kvikmynd Baltasars sem leikstjóra, Hafið, einnig þátt í aðalkeppni San Sebastian hátíðarinnar.
Í fyrra vann kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, Gullnu Skelina á hátíðinni, sem reyndist marka upphafið að mikilli sigurför myndarinnar um hátíðir heimsins þar sem hún hefur unnið til samtals 19 alþjóðlegra verðlauna. Svipaða sögu er að segja af kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss, sem vann Kutxa-New Directors verðlaunin á hátíðinni árið 2013 og vann í kjölfarið til fjölda alþjóðlegra verðlauna.