Það er ansi merkilegt hvernig fastir starfsmenn Pixar-teymisins eru löngu búnir að sanna það að bíóheimurinn væri verr staddur án þeirra, en ekki nóg með að hafa oftast unnið kraftaverk innan um sinn geira, heldur er nú einn leikstjóranna búinn að sýna undraverða hæfileika utan hans. Þetta er ekkert lítið verk heldur! Og miðað við afraksturinn hér mætti halda að Brad Bird hefði verið búinn að leikstýra leiknum hasarmyndum oft áður. Þarna erum við að tala um manninn sem gaf okkur teiknimyndaperlurnar The Iron Giant, The Incredibles og Ratatouille. Allt mjög vandaðar, óhefðbundnar og vel skrifaðar sögur með alvöru hjartarætur og þó svo að greind eða áhersla á frásögn sé greinilega fjarverandi í þessari mynd, þá eru aðrir kostir notaðir til þess að reyna að bæta það upp.
Aðdáendur Birds ættu ekki að búast við neinu snjöllu eða hjartnæmu. Þetta er fyrst og fremst Mission: Impossible-mynd, og ég held að karlinn hafi bara verið ánægður að gelda sig pínulítið bara til að fá starfið og sanna sig á allt öðru sviði heldur en hann hefur áður gert.
Ásamt hinum álíka heiladauðu Fast Five og Transformers: Dark of the Moon, þá er Ghost Protocol líklegast skemmtilegasta pjúra hasarmyndin sem hefur komið út á þessu ári sem er svo gott sem lokið þegar þetta er skrifað. Leikstjórinn veit alveg hvaða markmið hann setur sér og hann reynir að fylla upp í örlátan lengdartíma (130 mín) með því að pakka eins miklu af því góða og hann getur. Oftast er það ekkert nema mikill kostur þegar um poppkornsmynd er að ræða, en í þessu tilfelli hefur það líka í för með sér nokkra ókosti.
Myndin er stöðugt að flýta sér að komast frá einu hasar- eða áhættuatriði til þess næsta og plottið svokallaða týnist alveg í hrúgunni. Eftir smátíma verður manni svosem sama um söguþráðinn en karakterprófílarnir koma hins vegar verr út úr keyrslunni, og í nokkrum tilfellum neyðast persónur til að útskýra sjálfar baksögur sínar svo þær fái einhvern lit. Það heppnast ekki eins vel og handritið heldur, og þar að auki þjáist myndin örlítið vegna skorts á minnisstæðu illmenni sem hægt er að fyrirlíta sterkt. En eftir stendur þá býsna hefðbundinn rússíbani þótt hann sé ákaflega metnaðarfullur, hraðskreiður og skemmtilegur.
Ég er að vísu enn að átta mig á því hvort mér finnist Ghost Protocol vera betri mynd heldur en sú þriðja. Mér finnst hún vera geysilega vanmetin, skörp og hnyttin hasarmynd. Hún hafði þrennt sem fjórða myndin hefði mátt hafa: smáheila, betri samtöl og hatursverðan skúrk (Philip Seymour Hoffman, takk fyrir!) sem stal myndinni alveg. Aftur á móti hefur fjórða myndin ýmislegt sem sú þriðja hafði ekki, og af öllum Mission: Impossible-myndunum er þessi langmest á hreyfingu og græðir líka talsvert á því að snúast allan tímann um hópvinnu spæjaranna í stað þess að snúast alfarið um Tom Cruise, þar sem hann óbeint öskrar: „Hey, sjáið hvað ég er töff bíóstjarna!“ Mér tekst aldrei að hrista úr minninu þann yfirdrifna hégóma sem leikarinn hafði t.d. í John Woo-myndinni.
Þessi bíósería er auðvitað gerð til að Cruise geti sýnt öllum heiminum hversu hugrakkur leikari hann er (með hasar, húmor og “sögu” með sem bónus), með því að stökkva úr háum hæðum eða klifra fjöll og háar byggingar. Handritin sjá alltaf til þess að það sé engin önnur leið fyrir söguþráðinn til að komast lengra nema lífshættulegt áhættuatriði sé leiðin til að ýta plottinu áfram. Heimildirnar segja að Cruise hafi framkvæmt stærstu stönt-atriðin sjálfur með hjálp nokkurra víra, og ef það er satt, þá er erfitt að segja að hann kunni ekki að vinna vinnuna sína sem Hollywood-stjarna, hvort sem hann fer í taugarnar á fólki eða ekki. Ef að fimmta myndin verður einhvern tímann gerð verður erfitt gigg að toppa Dubai-klifrið í Ghost Protocol þar sem hann hangir á stærstu byggingu heims. Sú sena er einhver sú besta og mest taugatrekkjandi sem þessi sería hefur séð síðan Krúsarinn hékk millimeter yfir gólfi með hreyfiskynjara í lokuðu tölvuherbergi. Nokkuð kaldhæðnislegt miðað við hvernig hæðirnar víxlast.
Cruise stendur sig samt eins og hetja en það er ekki við öðru að búast þar sem hann er löngu orðinn vanur þessu. Eins mikið og Vísindakirkjan fer í mínar fínustu, þá tekst mér aldrei að hata þennan leikara því hann veit alltaf hvað hann er að gera og gerir það vel. Hann er nú bíóstjarna af góðri ástæðu sem oftar en ekki velur traust verk. Bird sér samt til þess að aukaleikararnir fái nóg að gera, eða allavega svo lengi sem efnið og tíminn býður upp á það. Jeremy Renner, sá nýfæddi eðalleikari, fær t.d. ekki að slást og hlaupa jafnmikið og Cruise, en hann er skemmtilegasti karakterinn. Ég myndi bakka það alveg upp ef hann væri arftaki Cruise í þessari seríu.
Simon Pegg fær svo að njóta þess að vera bæði brandarakallinn í myndinni og þátttakandi í fjörinu, og mér mun líða mjög illa þann dag sem ég mun hafa eitthvað vont um þann mann að segja. Michael Nyqvist er hins vegar ekkert síður auðgleymdur hér og í ófétinu Abduction (þar sem hann fékk svipað hlutverk, bara minna að gera) og Paula Patton heillaði mig aldrei nema í smástund með kröftugri brjóstaskoru. Baksagan hennar var líka klaufalega meðhöndluð. Franska pían Léa Seydoux fékk síðan að sýna fallega andlit sitt en ekki mikið meira. Það kannski gagnast henni eitthvað áfram á ferilnum.
Hasarmyndir í þessum dúr hafa nánast alltaf sinn skerf af göllum. Bara spurning um hversu marga og hvort þeir koma í veg fyrir afþreyingargildið. Það eina sem mínusarnir við Ghost Protocol gera er hindra það að ég geti kallað myndina þvílíkt frábæra. En hellað skemmtileg er hún!