Sýnishorn og veggspjald fyrir íslenska ógnartryllinn Eftirleikir er lent en myndin fjallar um eftirleiki ofbeldisfullra átaka á milli nokkurra einstaklinga, sem eiga sér stað á þremur mismunandi tímapunktum yfir þrjá áratugi. Hver atburður er tengdur hinum í gegnum langvarandi afleiðingar og leiðir persónurnar að lokum til frumlegra hefndaraðgerða.
Með helstu hlutverkin fara þau Vivian Ólafsdóttir, Jói G. Jóhannsson og Andri Freyr Sigurpálsson. Myndin lendir formlega í kvikmyndahúsum 1. nóvember í Laugarásbíói en að auki verður hún sýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF í ár.
Í samtali við Kvikmyndir.is segir Ólafur Árheim, leikstjóri og annar handritshöfundur myndarinnar, útkomuna vera „glæpamynd en það er enginn að rannsaka neina glæpi, heldur er bara verið að fremja þá.“
Að sögn leikstjórans eru flestir ofbeldisglæpir á Íslandi „frekar basic. Maki er myrtur eða slagsmál í bænum, en svona inn á milli, á nokkurra ára fresti kannski, koma upp skrýtin mál með einhverju dýpra að baki, og kannski tengjast þeir atburðum sem gerðust mörgum árum áður…?“
Þetta er morðráðgáta en það er engin persóna í myndinni sem hjálpar þér að ráða úr tengslum á milli atburða, af því þær eru of uppteknar við að lifa þá, eins og Ólafur orðar það. „Myndin er ógnvekjandi og meðal annars opnunarmynd á lítilli horror hátíð í Indiana, USA á sama tíma og RIFF, en þetta er ekki hryllingsmynd, og ekki heldur beint spennutryllir. Við erum að kalla þetta ógnartrylli, orð sem var einu sinni notað af gagnrýnanda Morgunblaðsins árið 1992 til að lýsa Basic Instinct þegar sú mynd kom út, en hún heitir Ógnareðli á Íslensku, en hugtakið var ekki síst við hæfi því þessi mynd Paul Verhoeven var djörf og umdeild; ógnandi mynd.
Eftirleikir gerast einnig að hluta til á því herrans ári 1992, sem er sá hluti myndarinnar sem Jói G fer með aðalhlutverk, svo þetta fellur allt heim og saman í kosmískum skilningi,“ segir Ólafur.
„En fyrst og fremst er þetta bíómynd, það er að segja mynd sem þarf að sjá og heyra í bíósal, hönnuð til að vera öflug bíóupplifun.
Í þeim efnum er ég ótrúlega glaður að Myndform sé að sýna myndina í Laugarásbíó þar sem AXL salurinn er langbesti salurinn á landinu fyrir kröftugar myndir.“