Það er rétt liðið yfir ár síðan að Farrelly bræðurnir fóru fyrst að tala opinberlega um framhald af 1994 gamanmynd þeirra Dumb and Dumber og síðan þá hafa uppfærslur verkefnisins aðeins verið góðar. Þeir Sean Anders og John Morris, handritshöfundar Sex Drive sem vinna nú hörðum höndum að That's My Boy, munu skrifa handrit myndarinnar á meðan Farrelly bræðurnir leikstýra. Jim Carrey og Jeff Daniels voru síðan í viðræðum um að snúa aftur og fóru þær á þann veg að hinir sönnu Lloyd Christmas og Harry Dunne verða viðstaddir.
Í gær hins vegar gaf bróðirinn Peter Farrelly upp núverandi stöðu verkefnisins, eða öllu heldur hvar það verður eftir 5 mánuði: „Við erum að gera okkur tilbúin til að taka upp Dumb and Dumber 2 í september. Þetta verður fyrsta framhaldið sem við gerum og við fengum Jim Carrey og Jeff Daniels til að koma aftur.“
Eins og allir vita þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem að önnur Dumb and Dumber-mynd hefur verið gerð, en árið 2003 kom einmitt út forsagan Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd. Þar sem enginn af lykilmönnum fyrstu myndarinnar tóku þátt í Dumberer var þetta skepna af allt öðru tagi og fékk myndin vægast sagt á sig mikið hatur. Sem betur fer viðurkenna þeir Farrelly bræður óþef myndarinnar og vilja taka það fram að Dumb and Dumber 2 verður ekkert í líkingu við hana: „Við gerðum ekki Dumb and Dumberer. Það var á vegum stúdíósins. Þannig við höfum alltaf viljað gera framhald og loksins hringdi Jim í okkur. Jeff hefur alltaf viljað gera það. Jim var upptekinn, en hann hringdi síðan og sagði, ‘Við verðum að gera þetta aftur.’ Hann var nýbúinn að horfa aftur á Dumb and Dumber og sagði bara, ‘Þetta er hið fullkomna framhald, gerum það!'“
Þar höfum við það, næstum því 20 árum síðar og loksins fáum við Dumb and Dumber-framhald. Get ég tekið því að lesendur séu spenntir eða sigldi þetta skip fyrir löngu?