Draugarannsakandi látinn

Hinn þekkti rannsakandi yfirskilvitlegra atburða, Lorraine Warren, sem varð innblástur fyrir The Conjuring hrollvekjuseríuna, er látin 92 ára að aldri.

Warren lést í svefni, og bar andlátið að með eðlilegum hætti.

Eiginmaður hennar, Ed Warren, sem var félagi hennar í rannsóknunum, lést árið 2006. Það var barnabarn hennar, Chris McKinnell, sem staðfesti fregnina í færslu á Facebook.

„Í gær lést amma mín, Lorraine Waren, rólega og í friði, og fór á fund síns elskaða Ed. Hún var ánægð og hlæjandi allt til loka. Hún var engill minn og hetja, og hennar verður sárt saknað. Vinsamlegast fagnið lífi hennar og hennar fallegu sál. Hugsið fallega til þeirra sem þið elskið. Takk fyrir og Guð blessi ykkur.“

Lorraine Warren fæddist í Bridgeport í Connecticut árið 1927. Hún kynntist Ed þegar hún var 16 ára gömul. Sagan segir að vinkonur hennar hafi farið með hana á skemmtun með James Cagney. Hún hafði aldrei farið á stefnumót, þar sem hún var fremur feimin og sótti rómversk kaþólskan stúlknaskóla. Vinir hennar kynntu hana fyrir Ed.

Warren hjónin rannsökuðu mörg fræg mál, þar á meðal mál sem urðu innblástur að The Amityville Horror, Poltergeist og Annabelle.

Warren skrifaði nokkrar bækur með manni sínum, um rannsóknir þeirra hjóna.

Ed og Lorraine Warren fengu sinn skerf af gagnrýni efasemdarmanna, en það hafði engin áhrif á störf þeirra. Lorraine hélt rannsóknum sínum áfram eftir að Ed lést. Þau stofnuðu the New England Society for Psychic Research og The Warren Occult Museum.

Hrollvekjan The Conjuring, sem frumsýnd var árið 2013, var byggð á málum sem hjónin rannsökuðu og varð að seríu sem enn sér ekki fyrir endann á. Fimm myndir hafa þegar verið gerðar, og fleiri eru á leiðinni. Tekjur myndanna fimm nema samtals um 1,5 milljörðum bandaríkjadala í sýningum um allan heim.

https://www.facebook.com/chris.mckinnell/posts/10155927998057027