Margir klóruðu sér í höfðinu yfir því þegar geimmyndin The Martian eftir Ridley Scott, með Matt Damon í aðalhlutverkinu, var tilnefnd til Golden Globe verðlauna í flokknum gamanmyndir og söngleikir á síðasta ári. Þeir sem séð hafa myndina myndu væntanlega ekki flokka hana þannig, þó að einstaka sinnum hafi verið létt yfir mannskapnum í myndinni.
Heilt yfir er myndin drama um hæfni mannskyns til að lifa af og sjálfs-bjargar-viðleitni.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn furða sig á tilnefningum í þennan flokk, en myndir eins og Chocolat, Almost Famous og Driving Miss Daisy, allt drama, féllu einnig í þennan flokk.
Maður hefði haldið að á þeim 70 árum sem The Hollywood Foreign Press Association, sem veitir verðlaunin, hefur verið til, hefðu samtökin geta lagað skilgreiningar í flokkana, en svo er ekki – eða allt þar til núna…
Samkvæmt Entertainment Weekly þá ætla samtökin að breyta skilgreiningum sínum fyrir næstu verðlaunaafhendingu, sem verður í janúar á næsta ári, en breytingin er þessi:
„Dramas with comedic overtones should be entered as dramas,“ eða í lauslegri íslenskri snörun: Drama með léttu yfirbragði á köflum, ættu að vera flokkuð sem drama.“
Nú er bara að sjá hvort að flokkun mynda breytist eitthvað með þessari viðbótarskilgreiningu.