Kvikmyndin Sommeren ´92 hefur slegið í gegn í Danmörku eftir að hún var frumsýnd í lok ágúst. Meira en 5% Dana hafa séð myndina og talið er að fjöldi seldra miða rjúfi 300 þúsunda múrinn í þessari viku.
Myndin, sem er leikin, fjallar um leið danska karlalandsliðsins til sigurs í lokakeppni EM í fótbolta árið 1992. Sigurinn er talinn einn sá óvæntasti í íþróttasögunni. Liðið komst bakdyramegin inn í lokakeppnina eftir að Júgóslavía hætti við þátttöku.
Enginn bjóst við neinu af Dönum, sem komust samt í úrslitaleikinn þar sem þeir báru sigurorð af Þjóðverjum.
Tvöfalt fleiri kvikmyndaunnendur í Danmörku hafa séð Sommeren´92 heldur en myndir á borð við Mission Impossible: Rogue Nation og Kingsman: The Secret Service, samkvæmt grein The Hollywood Reporter.
Leikstjóri Sommeren ´92 er Daninn Kasper Barfoed og skrifaði hann einnig handritið ásamt Anders August. Framleiðslan var í höndum Breta og Dana. Til stendur að sýna myndina utan Danmerkur á næstunni.