Á dögunum birti Forbes viðskiptatímaritið lista sinn yfir best launuðu kvikmyndaleikara í heimi, en þar sást meðal annars að Mark Wahlberg er launahæsti leikari í heimi, með 68 milljónir bandaríkjadala í árstekjur.
Listinn varpaði einnig ljósi á það hver er hæst launaði Marvel ofurhetjuleikarinn, en það er enginn annar en Vin Diesel, með 54,4 milljónir dala í tekjur á tímabilinu 1. júní 2016 til 1. júní 2017.
Þó að megnið af tekjum hans komi líklega frá leik hans í Fast and Furious og xXx myndunum, þá telst Diesel samt hæst launaði Marvel leikarinn vegna leiks síns í Guardians of the Galaxy Vol. 2, en þar talar hann fyrir trjámanninn Groot. Diesel mun einnig leika í ofurhetjumyndinni Avengers: Infinity War á næsta ári, en hún kemur í bíó 25. apríl 2018.
Annar hæst launaði ofurhetjuleikarinn er Robert Downey Jr. sem leikur Iron Man, með 48 milljónir dala í tekjur. Thor leikarinn Chris Hemsworth náði þriðja sætinu með 31,5 milljón dali.
Meðleikari Diesel í Guardians of the Galaxy, aðalleikari myndarinnar Chris Pratt, situr í 23. sæti Forbes listans með „aðeins“ 17 milljónir dala í tekjur.
Forbes listinn opinberar einnig sláandi launamun á milli kynjanna í Hollywood, en 10 launahæstu karlleikararnir eru með nærri þrisvar sinnum hærri tekjur en 10 hæst launuðu leikkonurnar.