Bruce Willis mun leika aðalhlutverkið í spennutryllinum Expiration, samkvæmt vefmiðlinum The Warp, sem komst að þessu á Cannes hátíðinni í Frakklandi sem nú stendur yfir.
Það er Emmett / Furla Films sem mun framleiða myndina, en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 60 milljónir Bandaríkjadala.
Í myndinni mun Willis leika leigumorðingja sem er byrlað eitur og leitar nú í ofboði að mótefni áður en eitrið gengur af honum dauðum. Handritshöfundur er Brian Tucker, sem skrifaði Broken City. Ekki er búið að ráða leikstjóra, en tökur eiga að hefjast í mars á næsta ári.
Emmett / Furla Films framleiða mynd Baltasars Kormáks, 2 Guns, þar sem Mark Wahlberg og Denzel Washington fara með aðalhlutverkin.