Fyrr í haust sögðum við frá frumsýningu myndarinnar The ABCs of Death 2 hér á kvikmyndir.is, en hún er samansafn 26 hrollvekjustuttmynda eftir kvikmyndagerðarmenn alls staðar að úr heiminum, þar sem hver og einn stafur stafrófsins stendur fyrir eina stuttmynd sem sýnd er í myndinni.
Stiklan úr myndinni var athyglisverð, en einnig er vert að vekja athygli á hrollvekjandi-listilega gerðum inngangi myndarinnar, sem er eftir Austurríkismanninn Wolfgang Matzl.
Matzl notaði úrklippur úr gamalli skólabók og bjó til teiknimynd úr myndunum, þar sem börn að leik fá hrollvekjandi andlát.
Matzl segir í samtali við kvikmyndir.is að það hafi tekið tvo mánuði að undirbúa verkefnið þar sem það þurfti að prenta allt saman, klippa það út og áætla tökurnar. „Gerð teiknimyndarinnar tók svo 10-14 daga og gekk mjög vel, einkum vegna góðs undirbúnings. Eftirvinnslan, klipping, snyrting osfrv. , tók svo einn mánuð til viðbótar. Þannig að allt í allt tók verkefnið um þrjá og hálfan mánuð,“ sagði Matzl í samtali við kvikmyndir.is
Matzl segist ekkert vera neinn sérstakur hryllingsmyndaunnandi í dag, þó hann hafi elskað hrollvekjur þegar hann var unglingur. „Uppáhaldsmyndirnar mínar eru The Shining, The Omen, Creepshow, Ringu, The Innocents, The Tenant, og allt eftir David Cronenberg, David Lynch og Jan Svankmajer.“
Spurður að því hvernig hugmyndin að innganginum hafi fæðst, segir Matzl að myndin hafi verið með plakat þar sem Sláttumaðurinn slyngi sitji með barn í kjöltu sinni og sé að lesa upp úr gamalli bók. „Ég hreifst af því og fannst tilvalið að þróa það áfram. Þannig að ég fékk þessa hugmynd að skóla þar sem börn geta lært um dauðann eins og hann væri barnaleikur.“
Fyrir þá sem hafa áhuga á tækninni á bakvið verkefnið þá tók hann myndina á Canon EOS 5D Mark II og notaði Dragonframe. Matzl segist vera sérlega stoltur af því að allt hafi verið tekið upp á myndavélina. „Jafnvel blóðið var tekið upp og sett saman eftir á.“
Hægt er að kynna sér verk Matzl á vefsíðu hans www.wolfmatzl.at
Hér fyrir neðan má svo horfa á innganginn að The ABCs of Death 2, eftir Wolfgang Matzl.