Ef þú hefur séð nú þegar ráðgátuna Murder On The Orient Express í bíó ( ath. að hér koma smá upplýsingar sem spillt gætu upplifun myndarinnar fyrir þá sem ekki hafa séð hana ), þá tókstu væntanlega eftir því í lokin þegar Kenneth Branagh, í hlutverki Hercule Poirot, var kallaður í næsta verkefni, en það snerist um morð í Egyptalandi.
Þarna var sterklega gefið í skyn að kvikmynda ætti aðra Agataha Christie sögu, Death on the Nile, og nú segir Empire kvikmyndaritið frá því að búið sé að staðfesta það.
20th Century Fox kvikmyndaverið er að raða þeim púslum saman, en þó er aðeins ein manneskja fastráðin í verkefnið sem stendur, handritshöfundurinn Michael Green.
Branagh leikstýrði myndinni, ásamt því að leika Poirot. Talið er að hann endurtaki leikinn í Dauðanum á Níl, þó hann eigi enn eftir að skrifa undir samning þar um.
Dauðinn á Níl kom fyrst út á bók árið 1937, en þá er spæjarinn góði, Poirot, í fríi í Egyptalandi, og flækist inn í ástarþríhyrning, sem fer illilega úrskeiðis. Rétt eins og raunin var með Morðið í Austurlandahraðlestinni, þá var gerð bíómynd eftir bókinni árið 1978.
Ekkert meira er vitað að svo stöddu um kvikmyndina, en þar sem Austurlandahraðlestinn siglir hraðbyri að því að fara yfir 150 milljón dala markið í tekjum um heim allan, þá virðist kominn grundvöllur fyrir framhaldsmynd.