The Penguins Of Madagascar, ný teiknimynd í fullri lengd sem verður hliðarsaga Madagascar teiknimyndanna, og fjallar um mörgæsirnar sem voru senuþjófar í Madagascar myndunum, laðar til sín nýja stórleikara á hverjum degi nánast. Nú síðast bættist Star Trek illmennið Benedict Cumberbatch í hópinn, en áður var John Malkovich búinn að samþykkja að vera með.
Malkovich mun tala fyrir aðal illmenni myndarinnar en Cumberbatch mun tala fyrir háttsett CIA leyniþjónustudýr, sem er á hælunum á Malkovich. Ekkert er gefið uppi um hverskonar dýr Cumberbatch talar fyrir.
Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem mörgæsirnar komast í kastljósið, því þær hafa einnig leikið í sérstökum jóla stuttmyndum og sjónvarpsþáttum.
Cumberbatch sést, eða heyrist, í The Hobbit: The Desolution Of Smaug um næstu jól, en hann leikur bæði drekann Smaug og The Necromancer. Þá er ekki langt þangað til leikarinn mun sjást túlka Julian Assange í myndinni The Fifth Estate og sjást í 12 Years A Slave eftir Steve McQueen, að ógleymdri myndinni August: Osage County.
The Penguins of Madagascar er væntanleg í bíó í mars árið 2015.