Eftir að hafa leikið síðustu ár í vísindaskáldsögum eins og Oblivion og Edge of Tomorrow, og spennuseríum eins og Mission Impossible og Jack Reacher, þá hefur Tom Cruise ákveðið að fara aftur í tímann, allt aftur á Biblíutíma.
Deadline vefsíðan segir að Cruise muni leika undir stjórn Dead Man Tell No Tales leikstjórans Joachim Rønning, í Biblíusögunni um Methúsalem, en samkvæmt hinni helgu bók þá lifði Metúsalem í 969 ár – geri aðrir betur …!
Myndin mun fara í saumana á því hvernig þessi öldungur notaða sinn langa tíma á Jörðinni, og hvernig hann þróaði með sér ótrúlega eiginleika til að lifa af.
Líklega er hér á ferð einhversskonar sögulegur spennutryllir í ætt við Ben-Hur eða Exodus: Gods and Kings.
Segja má að Cruise sé fullkominn í hlutverk Methúsalems. Hann er 54 ára en lítur út fyrir að vera þrítugur, og er auk þess í fantaformi. Kannski er Cruise hinn nýi Methúsalem og mun lifa næstu 900 ár!