Stórleikarinn Tom Cruise ætlar að snúa aftur í heim kappaksturs og hraðskreiðra bíla í fyrsta sinn síðan hann brunaði um brautirnar í Days of Thunder árið 1990.
Cruise ætlar að leika í mynd Oblivion leikstjórans Joseph Kosinski, Go Like Hell.
Cruise og Kosinski hafa ekki skrifað undir samning við myndverið ennþá, en viðræður eru á lokastigi.
Myndin fjallar um baráttuna á milli bílaframleiðandanna Ford og Ferrari um yfirráð yfir sportbílamarkaðnum. Myndin er byggð á bók A.J. Baime, Go Like Hell: Ford, Ferrari and their Battle For Speed and Glory at Le Mans, sem segir söguna af því þegar Ford gerði tilkall til yfirráða yfir markaðnum árið 1966 með bíl sem hannaður var af Carroll Shelby.
Cruise myndi leika Shelby sem vann með Henry Ford II og forstjóra Ford, Lee Iacocca,við að breyta ímynd Ford bílaframleiðandans í kappaksturskeppnum í Evrópu, sem Ferrari hafði ráðið lögum og lofum í fram að því.
Þríeykið framleiddi Ford GT40 bílinn sem varð fyrsti bandaríski bíllinn til að vinna Le Mans kapaksturinn, og vann síðan í fjögur ár í röð eftir það.
Cruise sést næst í framtíðartryllinum Edge of Tomorrow og síðan í Mission Impossible.