Bandaríski Castle-leikarinn Nathan Fillion elur með sér draum um að leika ofurhetju, en svo virðist sem nær hver einasti leikari hafi áhuga á slíku þessa dagana, enda ofurhetjumyndir gríðarlega vinsælar. Leikarinn var spurður sérstaklega að þessu á afþreyingarráðstefnunni The Chicago Wizard World Comic Con á dögunum.
Í fyrirspurnartíma á ráðstefnunni stóð áhorfandi upp og spurði Fillion hvaða ofurhetju hann myndi leika, ef hann mætti velja.
„Ég held að ég yrði góður sem Booster Gold. Það er á mínu sérsviði: sjálfhverfur, hefur gaman af að láta bera á sér … ég gæti vel ráðið við það. Ekkert allt of gáfaður. Mér dettur í hug Ambush Bug – hvað finnst ykkur um það? Ég myndi aldrei þurfa að sýna á mér andlitið. En ég held að Greatest American Hero verði endurræst fljótlega.“
The Greatest American Hero endurræsing er í vinnslu eins og Fillion nefnir, og leikstjórar The Lego Movie standa fyrir henni. Hver veit nema Fillion verði að ósk sinni!
Mynd um Booster Gold er hinsvegar ekki á teikniborðinu svo vitað sé. Hér má lesa meira um málið.