Knattspyrnuhetjan fyrrverandi og fyrrum liðsmaður breska fótboltaliðsins Manchester United mun leika aðalhlutverk í The Mermaid Man, sem er ný gamanmynd sem fjallar um ekkil sem stofnar sundballettlið. Sagan á að gerast í Manchester.
Síðan Cantona hætti í boltanum árið 1997 hefur hann skapað sér nafn sem leikari og The Mermaid Man, eða Hafmeyjumaðurinn, verður 30. mynd kappans.
Cantona, sem er 48 ára gamall og ættaður frá Marseille í Frakklandi, mun leika hlutverk Frack, en myndin ku vera í stíl við bresku gamanmyndina Full Monty og fjalla um hóp atvinnulausra manna sem finnur sér leið út úr eymdinni með sundballettiðkun, á tímum Margareth Tatcher á níunda áratug síðustu aldar.
Persóna Cantona vill að lið sitt vinni alþjóðlega sundballettkeppni í London, í minningu látinnar eiginkonu hans, sem var fyrrum meistari í íþróttinni.
Leikstjóri verður Stéphane Giusti (Why Not Me?, The Man I Love and Les bleus: premiers pas dans la police).
Þekktustu hlutverk Cantona til þessa í bíómyndum eru í myndunum Elizabeth (1998) og Looking for Eric (2009).
Cantona hefur haft nóg fyrir stafni að undanförnu. Ásamt því að leikstýra heimildarmynd sem heitir Football and Immigration: 100 Years of Common History, þá er hann með tvær franskar kvikmyndir í eftirvinnslu: Les Rois du Monde og Marie et les Naufragés.
Cantona leikur einnig í nýlegum vestra, The Salvation, ásamt Mads Mikkelsen og Eva Green.