James Cameron hefur keypt kvikmyndaréttinn á spennusögu eftir Taylor Stevens um upplýsingasérfræðinginn Vanessa „Michael“ Munroe, en útgefandi sögunnar, Broadway Publishing, hefur lýst söguhetjunni sem kvenkyns útgáfu af Jason Bourne, sem fjórar kvikmyndir hafa verið gerðar um.
Cameron og félagi hans Jon Landau, sem lýsa bókinni sem algjörum gimsteini, telja að hér sé hugsanlega á ferðinni efni í fleiri en eina mynd, en þegar hafa komið út tvær bækur um þessa persónu og sú þriðja er á leiðinni.
Sagan heitir The Informationist og fjallar um fyrrnefnda Munroe sem er meðal annars með forseta og forsætisráðherra á listanum yfir viðskiptavini sína. Þegar olíu-milljarðamæringur frá Texas ræður hana til að finna týnda dóttur sína, þarf Munroe að horfast í augu við hluti í fortíðinni sem hún hefur lengi reynt að gleyma.
Vinna við The Informationist hefst þegar Cameron er búinn að gera Avatar 2 og 3, en þriðja Avatar myndin verður frumsýnd árið 2015.