Þessa vikuna standa yfir þýskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís. Hátíðinni lýkur þann 25. mars, og er hún haldin í samstarfi við Goethe Institut, Sjónlínuna, Kötlu Travel, Sendiráð Þýskalands á Íslandi og RÚV. Þetta er í annað skipti sem hátíðin er haldin, og þema hennar er að þessu sinni fjölskyldan í öllum sínum myndum. Í tilkynningu frá BíóParadís segir:
„Opnunarmyndin er Almanya – Velkomin til Þýskalands (Almanya – Willkommen in Deutschland) eftir Yasemin Samdereli, hressileg kómedía um tyrkneska fjölskyldu í Þýskalandi. Hinar myndirnar koma m.a. inná sjúkdóma, hjónalíf, framhjáhöld, uppreisnarþörf og tvikynhneigð svo eitthvað sé nefnt!
Alls verða sýndar sjö nýjar myndir frá þessu forna kvikmyndaveldi, sem á undanförnum árum hefur gengið í gegnum hressilega endurnýjun lífdaganna. Myndirnar eru sýndar með enskum texta.“
Nánari upplýsingar og stiklur fyrir myndirnar sjö sem sýndar eru má finna á hlekknum fyrir ofan, hér má svo sjá sýningartíma hátíðarinnar. Að lokum ber að fagna þessu framtaki til þess að bæta fjölbreytnina í bíóflórunni hér á landi, og eru lesendur hvattir til að nýta tækifærið. Ekki skemmir fyrir að aðgangseyririnn er aðeins 500 kr. inn á allar myndir hátíðarinnar.