Þvert á það sem sumir héldu, þá verður gert framhald af spennutryllinum Den of Thieves sem nú er í bíó hér á Íslandi, og aðalleikarinn, Gerard Butler, hefur þegar skrifað undir samning þar um. Menn töldu að bæði dómar sem myndin hefur fengið sem og aðsóknin á myndina hafi verið á mörkunum að duga til að hægt væri að ráðast í framhald, en eins og Empire bendir á þá náðist að halda vel um pyngjuna í framleiðsluferlinu og markaðssetningunni, auk þess sem skattaívilnanir komu að góðum notum, sem og forsölur á myndinni í bíóhús.
Aðrir helstu leikarar í fyrstu myndinni, 50 Cent, O’Shea Jackson Jr. og handritshöfundurinn og leikstjórinn Christian Gudegast snúa allir aftur í fjörið með Butler.
Fyrsta kvikmyndin fjallar um það þegar hópur eitursnjallra og óttalausra bankaræningja fremur nokkur djörf rán í Los Angeles þá er sérsveitarmaðurinn Nick Flanagan, sem Butler leikur, kallaður til leiks ásamt mönnum sínum en Nick hefur sérhæft sig í að uppræta slík glæpa- og ránsgengi.
Framhaldsmyndin mun leita út fyrir landsteina Bandaríkjanna, og verða alþjóðlegri í öllum sínum hasar. Nick eltir Donnie, sem er orðinn enn meiri hrappur en við fengum að kynnast í fyrstu myndinni, en hann slæst í lið með Panther glæpagenginu til að ræna stærsta demantamarkað í heimi.
Tekjur Den of Thieves 1 eru orðnar um 57 milljónir bandaríkjadala um heim allan.
Af öðrum verkefnum Butler er það að segja að önnur framhaldsmynd Butler kvikmyndarinnar Olympus Has Fallen, Angel Has Fallen, hefur fengið Piper Perabo í leikarahópinn. Í Angel Has Fallen á Mike Banning, sem Butler leikur, í höggi við hryðjuverkamenn sem ráðast á forsetaflugvélina Air Force One. Leikstjóri er Ric Roman Waughn, en tökur munu fara fram á þessu ári.