Kvikmyndaleikstjórinn Tim Burton hefur útilokað framhald af mynd sinni um Lísu í Undralandi. Burton viðurkennir að endirinn á myndinni hafi verið óljós, og hafi skilið eftir lausa enda sem hægt væri að taka upp í framhaldsmynd. Þrátt fyrir það finnst honum það slæm hugmynd.
Í samtali við MTV News segir Burton: „Þetta er svipað og það var mikið spurt um hvort ég ætlaði ekki að gera framhald af Nightmare Before Christmas, en ég vildi ekki gera það, því sumar myndir eiga bara að fá að vera einar og í friði.“
Hinn sérlundaði leikstjóri segist þakklátur Disney fyrir að hafa ekki pressað á hann um að gera framhald af myndinni.
Þó að Burton muni ekki gera framhald af Lísu í Undralandi, þá á hann í viðræðum um að búa til Brodway sýningu úr myndinni.
„Ég er að tala við þá, því ég fékk eina hugmynd sem gæti verið skemmtileg. Ég veit ekki hvort þetta fer alla leið, en þetta er eitthvað. Ég hef alltaf viljað gera eitthvað á sviði. Ég ætla að skoða þetta og sjá hvað gerist.“