Þrumuguðinn var næstum farinn heim til Ástralíu

Það munaði nánast engu að kvikmyndaleikarinn Chris Hemsworth, 27 ára Ástrali, gæfist upp á Hollywood og því að reyna að slá í gegn þar í bæ, þegar þrjú hlutverk bönkuðu skyndilega á dyrnar.
Chris er nú kominn á beinu brautina í Hollywood og leikur aðalhlutverkið í myndinni Thor sem væntanleg er í bíó í lok apríl, en myndin fjallar um þrumuguðinn Thor, eða Þór, og ævintýri hans.

Hemsworth segir í samtali við Access Hollywood fréttaveituna að ferill hans hafi farið í 9 mánaða frost eftir að hann lék lítið hlutverk í Star Trek endurræsingunni árið 2009. „Við tók 9 mánaða tímabil þar sem ég hafði lítið sem ekkert að gera, og ég var byrjaður að hringja í foreldra mína í Ástralíu og segja þeim að ég væri á leiðinni heim,“ segir Chris.

En rétt í þann mund þegar Chris var að byrja að pakka ofaní tösku og haska sér niður til Ástralíu, þá skyndilega byrjuðu hlutverkin að hrúgast inn og hann var ráðinn í þrjár myndir, Cabin in the Woods, Red Dawn og fyrrnefnda Thor en þar leikur hann með ekki minni mönnum en Óskarsverðlauanhöfunum Anthony Hopkins og Natalie Portman, og leikstjóri er Kenneth Branagh. „Það er annað hvort í ökkla eða eyra,“ segir Chris um skyndilega velgengni sína.

Og fyrst að leikarinn hefur nú meira fé á milli handanna en hann er vanur, þá ákvað hann að kaupa sér bíl af tegundinni Acura. Hann segir aðspurður að of erfitt hefði orðið fyrir sig að komast inn í Lamborghini sportbíl eftir að hann bætti á sig 10 kílóum fyrir hlutverk sitt í Thor.

Stikk: