Nýtt plakat er komið fyrir íslensku myndina Málmhaus, eða Metalhead eins og hún heitir á ensku, eftir Ragnar Bragason. Plakatið var frumsýnt á Facebook síðu kvikmyndarinnar fyrr í dag, en þar kemur fram að hönnuður plakatsins sé Ómar Hauksson og ljósmyndina á plakatinu hafi tekið Baldur Kristjánsson.
Sjáðu plakatið hér fyrir neðan:
Stemmningin á plakatinu má lýsa sem þrúgandi og mætti ætla að foreldrar „málmhaussins“, sem leikinn er af Þorbjörgu Helgu Þorgilsdóttur, séu ekki á eitt sáttir með áhugamál dótturinnar! Foreldrarnir eru leiknir af Ingvari E. Sigurðssyni og Halldóru Geirharðsdóttur.
Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Árið 1970, á sama tíma og Black Sabbath taka upp sína fyrstu plötu, fæðist Hera Karlsdóttir á fjósgólfi á Svarthamri, litlu kúabúi úti á landi. Í æsku er Hera uppátækjasöm og lífið í sveitinni áhyggjulaust þangað til hræðilegur harmleikur dynur á fjölskyldunni. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og kennir Hera sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún huggun í myrkri tónlistarstefnu og elur með sér draum um að verða þungarokkstjarna. Árin líða undir svörtum hamrinum sem gnæfir yfir bænum. Hera æfir sig út í eitt á gítarinn, stofnar hljómsveit og er saga hennar samofin sögu þungarokksins. Hera er uppreisnagjarn, óþreyjufullur og miskilinn vandræðaunglingur á þrítugsaldri sem dreymir um hinn stóra heim og er sífellt á leiðinni í burtu en er föst á æskuslóðunum. Hún kemur sér endalaust upp á kannt við umhverfi sitt og sveitunga, foreldrum sínum til mikillar armæðu sem skilja ekki hvað gengur að henni. Æskuvinur hennar Knútur – sem snýr aftur í sveitina eftir dvöl í bændaskóla og ætlar að taka við búi af foreldrum sínum – hefur verið astfanginn af henni alla sína ævi. Honum dreymir um að þau verði hjón og fari að búa en Hera hefur önnur áform og þegar nýr prestur flytur í sveitina fara örlagahjólin að snúast. Hera þarf að kljást við að fullorðnast, finna eigin rödd og komast að þvi að maður getur ekki flúið sjálfan sig endalaust
Myndin verður frumsýnd á Íslandi 11. október nk. en verður heimsfrumsýnd á TIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada nú í september.