Þessi grein birtist upphaflega í ágústhefti Mynda mánaðarins.
Allt frá því að þeir Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger slógu í gegn á áttunda og níunda tug síðustu aldar hefur verið talað um að para þá saman í aðalhlutverkum myndar. Og nú er komið að því!
Segja má að í rúm fjörutíu ár hafi það verið draumur margra framleiðenda í Hollywood að gera mynd með tveimur af þekktustu hasarmyndaleikurum seinni tíma, þeim Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger, í aðalhlutverkum. Ótalmargar hugmyndir um samstarf skutu upp kollinum en alltaf var eitthvað sem kom í veg fyrir að þeir næðu saman. Um leið fóru alls konar sögur á kreik um ástæður þess að ekkert gekk að koma á samstarfi, allt frá því að þeir hreinlega þyldu ekki hvor annan til þess að þeir þyrðu ekki að vera í sömu myndinni vegna þess að þeir væru hræddir um vera yfirskyggðir af hinum. Stallone hefur reyndar viðurkennt að hafa á árum áður látið metnað sinn til að verða hasarmyndahetja númer eitt trufla sig dálítið í verkefnavalinu og kannski hafi það átt sinn þátt í að koma í veg fyrir að af samstarfi þeirra tveggja yrði. Aðalástæðan var samt sú að alltaf þegar álitleg hugmynd skaut upp kollinum voru þeir uppteknir við annað. Svo fór Arnold í stjórnmálin árið 2002 og dró sig um leið í hlé frá kvikmyndaleik.
Eftir að Arnold lét af störfum sem ríkisstjóri Kaliforníu bauð Sylvester honum að leika aukahlutverk í The Expendablesmyndunum sem Arnold þáði eins og menn muna. Um leið fóru þeir tveir að leggja drögin að gerð myndar þar sem þeir yrðu báðir í aðalhlutverkum og útkoman er myndin The Escape Plan sem verður frumsýnd í september. Hún fjallar um mann, Ray Breslin, sem lendir í því að þurfa að brjótast út úr fangelsi sem hann hannaði sjálfur og enginn á að geta brotist út úr. Til að gera þetta mögulegt þarf hann að stóla á annan fanga sem Arnold leikur.
Við fjöllum frekar um The Escape Plan í næsta blaði, en þrælfín stiklan er komin á netið!