Leikarinn Josh Brolin hefur lengi glímt við alkóhólisma en í viðtali við The Guardian segist hann einnig hafa prófað harðari efni.
Brolin, sem er 46 ára, hlustaði á pönk á unglingsárum sínum í Santa Barbara á níunda áratugnum. Hann var hluti af brimbrettahópi sem kallaði sig Cito Rats. Hann rændi bílum til að fjármagna kaup á eiturlyfjum og lenti í alls konar vitleysu.
„Ég prófaði heróín,“ sagði hann. „Það hljómar hræðilega þegar maður orðar það svona. En já, ég prófaði heróín. Ég fór aldrei á bólakaf í neyslu og ég dó ekki, sem er gott mál. Nítján vinir mínir dóu. Flestir af þessum strákum sem ég ólst upp með eru dánir núna,“ sagði Brolin, sem lék nýlega í The Labor Day á móti Kate Winslet.
Myndin, sem er í leikstjórn Jason Reitman, er byggð á skáldsögu Joyce Maynard.