Síðasta myndin í Hobbita-þríleik Peter Jackson hefur fengið nýtt nafn. Leikstjórinn Peter Jackson greindi frá þessu á Facebook fyrir stuttu.
Upprunalega átti The Hobbit aðeins að vera tvær myndir en seinna meir var þeim breytt í þrjár og bætti Jackson inn titlinum The Desolation of Smaug fyrir aðra myndina, en hélt titlinum á þriðju myndinni, There and Back Again. Framleiðslufyrirtækið New Line Cinema hefur þó aldrei verið hrifið af þeim titli og bárust fréttir af því að myndin gæti fengið nýtt nafn fyrir nokkru.
Ýmsar getgátur voru uppi og kepptust menn við að giska á nýjan titil, margir héldu að titllinn myndi breytast í Into The Fire og vísar það í einn kafla úr bókinni.
Þessar getgátur eru nú úr sögunni því Jackson hefur opinberað nýjan titil og ber nú þriðja myndin heitið: The Hobbit: The Battle of the Five Armies. Titillinn vísar í hinn mikla bardaga um Erebor úr skáldsögunni eftir J.R.R. Tolkien.
Myndin verður frumsýnd þann 17. desember næstkomandi.