Bridget Jones: Sú besta í seríunni til þessa

Bridget Jones er mætt aftur á hvíta tjaldið í fjórðu kvikmyndinni um þessa ástsælu persónu, Bridget Jones: Mad About the Boy. Myndin, sem byggir á samnefndri skáldsögu Helen Fielding, hefur þegar fengið frábærar viðtökur, en gagnrýnandi The Daily Telegraph segir t.d. að um bestu myndina í seríunni til þessa sé að ræða.

Aðlögun að nýjum tímum

Í umfjöllun Telegraph segir að það sé næsta óhugnaleg tilhugsun fyrir bresku Britpop kynslóðina að Bridget Jones’s Diary er nú næstum jafn gömul og Bridget sjálf var þegar hún hóf að skrá hugsanir sínar á blað. Engu að síður hefur persónan haldið sjarma sínum og aðlagað sig að breyttum tímum að mati gagnrýnanda Telegraph. Þar sem Bridget var ein af tákngervingum Cool Britannia-áranna, hefur hún nú þróast í miðaldra einstæða móður sem glímir við nýjar áskoranir í lífinu.

Bridget Jones: Mad About the Boy (2025)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7
Rotten tomatoes einkunn 89%

Bridget Jones sem nú er ekkja á sextugsaldri tekst á við áskoranir nútímalífs á sama tíma og móðurhlutverkið krefst mikils af tíma hennar og orku. Við sögu koma fjölskylda, vinir og fyrrum elskhugi hennar Daniel, en einnig yngri maður - og kannski - bara kannski - raungreinakennari...

Bridget í nýju lífi – en með sama sjarma

Í kvikmyndinni er Bridget, leikin af Renée Zellweger, ekkja eftir að eiginmaður hennar, Mark Darcy (Colin Firth), lést fimm árum fyrr í hetjulegum aðstæðum í Darfur. Hún býr nú í Hampstead með börnunum Billy og Mabel og reynir að endurvekja bæði félagslíf sitt og vinnuferil. Hún lendir í óvæntum og oft pínlegum aðstæðum sem tryggja áhorfendum bæði hlátur og hjartnæm augnablik, og dagbókarskrifin eru sem fyrr stunduð af krafti.

Sterkur leikarahópur og fyndin frásögn

Meðal nýrra persóna er Roxster, ungi og vöðvastælti garðyrkjumaðurinn sem Bridget hittir, auk þess sem Chiwetel Ejiofor fer með hlutverk Mr. Wallaker, hæversks en heillandi kennara sem virðist eiga eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar. Endurkoma klassískra persóna, eins og Daniel Cleaver (Hugh Grant), er líka áberandi, en myndin fellur ekki í þá gryfju að reiða sig eingöngu á fortíðarþrá heldur nýtir eldri persónur á skynsamlegan hátt, eins og sagt er frá í The Daily Telegraph.

Sjónrænt falleg og vel heppnuð endurkoma

Leikstjórinn Michael Morris skilar verkinu af sér af mikilli fagmennsku samkvæmt gagnrýnanda Telegraph. London og Lake District þjóðgarðurinn birtast í sínu fegursta ljósi í myndinni, sem hefur þann helgarblaða-stíl sem hentar einstaklega vel fyrir áhorfendur sem vilja njóta hlýlegrar og skemmtilegrar kvikmyndarupplifunar.

Endurvakning rómantískrar gamanmyndar

Gagnrýnandinn klikkir út með að segja að myndin sé óvænt gleði og bætir við að eftir áratug af dvala virðist breska rómantíska gamanmyndin loksins vera komin aftur í sitt besta form – og Bridget Jones: Mad About the Boy sé fullkomin leið til að fagna því.

(Byggt á umfjöllun The Telegraph)