Þreyttur og metnaðarlaus þristur

Af hverju gat þessi mynd ekki verið góð? Ég vissi ekki að það væri að biðja um svona svakalega mikið að fá Men in Black-mynd sem er nálægt því að vera eins svöl, eins skemmtileg, eins úthugsuð og fyndin og sú fyrsta. Tíu ár á milli mynda er ansi stórt tímastökk fyrir nýja framhaldsmynd sem enginn bað í rauninni um, nema kannski einhverjir smákrakkar sem elskuðu mynd númer tvö, og þá væntanlega bara vegna þess að hún hafði ærslafullan húmor og talandi hund í tilgangslausu aukahlutverki. Ég þoldi ekki Men in Black II og get varla sagt að tilfinningar mínar til þessarar þriðju séu eitthvað mikið hlýrri, og alltaf þykir mér jafnleiðinlegt að sjá svona illa unnið úr skemmtilegum hugmyndum.

Maður verður auðvitað að hafa það í huga fyrirfram að aðstandendur ákváðu ekki að gera þessa mynd til að lagfæra skaðann sem forverinn olli, eða til að betrumbæta orðspor seríunnar. Ekki séns! Þessi mynd var einungis gerð til að græða á ákveðinni nostalgíu hjá yngri hópum, og þar sem Will Smith hafði ekki gefið út stóra sumarmynd í fjögur ár var mjög öruggt veðmál að grípa Barry Sonnenfeld (sem hefur ekkert unnið af neinu viti síðastliðinn áratug) og dressa sig aftur upp með Tommy Lee Jones. En vegna þess að Jones er orðinn alltof gamall fyrir þennan skít, þá var Josh Brolin sóttur sem varamaður… til að apa eftir honum. Reyndar fannst mér það nokkuð sniðugt.

Heilsteypt handritsgerð hefur augljóslega verið algjört aukaatriði í þessari framleiðslu, og skrifin eru svo klúðursleg og húmorinn það flatur að tilhugsunin um skemmtanagildi breytist fljótt í fjarlægan draum á meðan lengdinni stendur. Það eina sem myndin hefur áhuga á er að líta vel út og mata ofan í fjöldann meira af því sem var gert áður. Svo eitthvað sé nefnt þá segir Will Smith og gerir eitthvað ofsalega pirrandi/fyndið á meðan félagi hans hamrar endalaust á því hversu mikill fýlupúki hann er. Geimverur keppast líka um það hver er súrari en sú sem kom á undan. Svo endar þetta allt með stuttum heimsendahasar í lokin, og í þessu tilfelli er hann útataður í augljósum bluescreen-skotum.

Húmorinn er ekki alfarið lamaður, og það leynast nokkur hörkugóð atriði hér og þar. Það eru meira að segja fáein tilfelli þar sem handritið ber merki um ferskar hugmyndir eða hnyttni, en annaðhvort er illa unnið úr efninu eða mómentin endast svo stutt að þau týnast innan um allt hitt kjaftæðið sem er í gangi. Verst er nú samt þegar myndin reynir að sýna einhliða aðalpersónunum dramatíska umhyggju, til dæmis með endi sem ég var næstum því farinn að æla yfir. Brómantíkin, og allt sem svífur í kringum hana, vill vel en er ekki alveg að ganga. Frekar hefði ég þegið betri söguþráð, kannski örlitla sál en minna af kjánalegri persónusköpun. Ég gef þó handritinu punkta fyrir að reyna að gera eitthvað nýtt með karakterana. Eitthvað sem önnur myndin gerði svo sannarlega ekki.

Söguþráðurinn er ekki eins mikil kássa og í mynd nr. 2 en hann er samt þunnur, óspennandi og bara einfaldlega leiðinlegur. Holurnar í handritinu eru á stærð við kjaftinn á Smith og ýmsar mikilvægar spurningar eru aldrei svaraðar. Svo þegar myndin stoppar plottið til að reyna að vera þvílíkt fyndin er erfitt að halda augum opnum, en það undirstrikar bara það sem maður þegar vissi: Barry Sonnenfeld er löngu búinn að missa alla þá flottu hæfileika sem hann hafði – og ef hann fær ekki ótrúlega fyndið handrit í hendurnar eru engar líkur á því að honum takist að gera efnið þolanlegt.

Þegar Sonnenfeld gerði fyrstu MIB-myndina var hann gjörsamlega í essinu sínu. Þar sást að þetta var sami maðurinn og gerði Addams Family-myndirnar eða hina ávallt ánægjulegu Get Shorty. Þegar maður horfir á MIB-framhaldsmyndirnar sést það ansi skýrt að þetta gæti vel verið sami maður og flækti sér í Wild Wild West slysinu. Eftir velgengni fyrstu Men in Black-myndarinnar fóru stóru Hollywood-peningarnir að hrúgast inn og þá datt maðurinn alveg úr sambandi. Að vísu finnst mér Big Trouble frá 2001 vera ferlega vanmetin mynd en hæfileikarnir voru samt farnir að hrörna. Og til að spara öllum háan hita og bældar minningar vil ég helst helst ekkert minnast á gamanmyndina með Robin Williams frá 2006. Já, þessi með húsbílnum.

Men in Black 3 minnir mig á goslaust kók. Það lítur í smástund út eins og venjulegt kók þangað til maður skoðar það betur og smakkar, og þá kemur bara ógeðslegt bragð og gretta í smettinu. Ég gerði að sjálfsögðu ekki ráð fyrir öðru fyrirfram en að Bo Welch, Rick Baker og Danny Elfman myndu sinna sínum rullum fagmannlega – en þeir hafa allir þrír gert þetta þrisvar sinnum áður og hefur þessi mynd lítið til að bæta við. Sviðsmyndir og geimveruförðun er flott en ekkert eftirminnileg og Elfman er dottinn í þann pakka að spila gömlu þemalögin aftur og aftur.

Tommy Lee Jones lætur eins og hann sé engan veginn að nenna myndinni og Will Smith fer í gegnum venjulegu rútínu sína án þess að hlaða meiri orku í hana eða svo mikið sem nýjungar. Báðir tveir eru svosem fínir og hafa sjaldan verið neitt minna en það, en það liggur við að maður taki eftir dollaramerkjunum í augum þeirra. Ég vonaðist innilega til þess að Josh Brolin myndi stela senunni sem yngri útgáfan af Jones, og hann á vissulega sína spretti en gerir lítið annað en að herma beint eftir fyrirmynd sinni, en gerir það þó af miklum áhuga. Allt er betra en enginn Brolin.

Óskiljanlega tekst Sonnenfeld enn og aftur að velja góðan leikara í hræðilegt illmennahlutverk. Jemaine Clement ætti að vera miklu betri en þetta, og mér finnst hann eiga betur skilið því skúrkurinn Boris (með hræðilega „catch phrase-ið“) er alveg glataður, en hann neyðist líka til þess að vera sá sem stýrir leiðinlega plottinu. Michael Stuhlbarg (snillingurinn sá) er bæði ljúfur og óþolandi sem örugglega eini karakterinn sem mér finnst vera eitthvað örlítið áhugaverður, en meira svo á blaði en í myndinni sjálfri. Betri handritshöfundur hefði getað gert margfalt betri hluti við hann og pælingarnar á bakvið hann.

Sama hvort hún sé góð eða slæm er erfitt að líta á Men in Black 3 sem eitthvað annað en glansandi, metnaðarlausa peningamaskínu. En alveg sama þótt allir sjái það þýðir það ekki að Sonnenfeld og handritshöfundurinn hafi afsökun til þess að sofa í gegnum sín störf. Báðir tveir hefðu tvímælalaust átt að nýta tækifærið og koma vörumerkinu aftur í upprunalegt form, þegar Men in Black var ennþá „edgy,“ töff og öðruvísi. Síðan þróaðist þetta bara í þreyttan, dýran brellubrandara… fyrir börn og heiladauða. Í dag er öllum sama um þessa seríu. Ég efa ekki einu sinni það að Sonnenfeld sjálfur sé ekkert að leggja of mikla hugsun í hana, enda sést það á aulalegu misræmi hjá númeruðum titlum framhaldsmyndanna (fyrst rómversk tala, og svo ekki), ásamt litlu „continuity“ tilliti.


(4/10)