Tom Cruise og leikstjórinn Doug Liman hafa gert tvær myndir saman og nú bæta þeir líklega þeirri þriðju í hópinn. Áður hafa þeir gert myndirnar Edge Of Tomorrow og Mena, sem frumsýnd verður á næsta ári. Næst verður það hins vegar Luna Park, mynd sem hefur verið á teikniborði Liman um nokkra hríð.
Luna Park fjallar um hóp geimfara sem ferðast um heiminn í leit að búnaði sem þeir þurfa til að komast aftur til tunglsins þar sem þeir ætla að reyna að finna orkuuppsprettu.
Jake Gyllenhaal átti upphaflega að leika í myndinni, en hætti við, og í kjölfarið hefur Liman leitað logandi ljósi að rétta leikaranum í aðalhlutverkið.
Cruise mun leika aðalhlutverkið svo lengi sem handritið verði tilbúið á réttum tíma og myndin passi inn í þéttbókaða dagbók Cruise, sem er með Jack Reacher 2 og næstu Mission: Impossible mynd í undirbúningi.