Breski kvikmyndaleikarinn léttgeggjaði Russel Brand, sem er meðal annars þekktur fyrir leik sinn í gamanmyndinni Get him to the Greek, var handtekinn í gær, föstudag, í Los Angeles í Bandaríkjunum eftir að hafa ýtt og slegið til paparazzi slúðurljósmyndara sem voru á flugvellinum.
Ljósmyndararnir voru á flugvellinum til að ná myndum af honum og eiginkonu hans, söngkonunni Katie Perry, þegar þau voru á leið í flug og voru að fara í gegnum öryggishlið á flugvellinum.
Einn ljósmyndaranna framkvæmdi borgaralega handtöku á Russel, að því er bandaríska tímaritið US Weekly segir frá.
Eftir að lögregla á flugvellinum var búin að ræða við leikarann, var honum fylgt í burtu, grunaður um barsmíðar.
Brand og Perry misstu bæði af áætlunarflugi því sem þau ætluðu að taka þennan dag.