Orðið á götunni er að næsta James Bond mynd, sú 24. í röðinni, verði beint framhald af þeirri síðustu, Skyfall. Þó er nokkuð ljóst að Bond mun eiga í höggi við nýjan þorpara, þar sem Javier Bardem mun ekki snúa aftur í því hlutverki eins og allir sem séð hafa Skyfall hljóta að skilja.
Ný frétt af málinu segir að handritshöfundar séu að velta fyrir sér að hafa þorparann í stíl við þorpara James Bond mynda frá sjöunda og áttunda áratugnum.
Samkvæmt mi6 vefsíðunni, þá er ætlunin að fá risastóran þorpara sem mun gnæfa yfir Daniel Craig í hlutverki Bond. Persónan, sem kölluð er Hinx, á að vera álíka og Jaws, ( Skoltar í íslenskri þýðingu) sem fyrst kom fram í Bond myndinni The Spy Who Loved Me frá árinu 1977 og var leikinn af Richard Kiel, og Oddjob, sem kom fram í Goldfinger frá árinu 1964, og var leikinn af Harold Sakata.
Hér er lýsing mi6 á persónunni:
Byrjað er að ráða í hlutverk aðal þorparans í myndina, og er verið að leita að manni sem er vel á sig kominn líkamlega og er meira en 1.90 m. á hæð. Hver svo sem hreppir hlutverkið mun eiga í nokkrum útistöðum við Daniel Craig í hlutverki 007 í gegnum alla myndina, og meðal annars mun hann lenda í bílaeltingarleik. Leitað er sérstaklega í hópi fyrrum íþróttamanna, og sérstaklega er leitað að mönnum sem þykja óvenjulegir á einhvern hátt. Vinnuheiti persónunnar er Hinx og á að vera á bilinu 30 – 45 ára gamall.
Í fréttinni er ítrekað að Hinx muni ekki verða eins og Jaws eða Oddjob, og ekki á reisa þá upp frá dauðum. Hinx verður ný persóna og ólíkur öllum á undan honum.
Bond 24 verður frumsýnd 6. nóvember 2015 og með helstu hlutverk fara Ralph Fiennes, Daniel Craig, Naomie Harris, Ben Whishaw.
Leikstjóri er Sam Mendes.