Eftirfarandi er fréttatilkynning frá SENU:
Íslenska 3D teiknimyndin Hetjur Valhallar – Þór var frumsýnd um helgina og var um viðamestu frumsýningu Íslandssögunar að ræða; myndin var frumsýnd í 24 bíósölum á 11 stöðum um allt land. Á bak við myndina liggur 7 ára vinna og kostaði hún um 1.5 milljarð íslenskra króna.
Vinnan virðist hafa skilað sér því að viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda um helgina voru með eindæmum góðar. 8 þúsund manns hafa séð myndina nú þegar og er um að ræða fimmtu stærstu opnun allra tíma á teiknimynd hérlendis. Eru íslensku kvikmyndargerðarmennirnir þar með að slá við Hollywood myndum á borð við Shrek 1-3 og Kung Fu Panda 1 og 2.
Viðtökur gagnrýnenda voru ekki síðri og óhætt að segja að þeir hafi ekki haldið vatni. Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf myndinni til að mynda fullt hús og sagði:
„Fyrsta íslenska teiknimyndin í fullri lengd fullkomin skemmtun…Þrívíddin gerir sjónarspilið svo enn mikilfenglegra…Það er augljóst að sá mikli her manna sem gerði myndina hefur lagt sig allan fram og uppskorið ríkulega eftir því…Leikararnir sem ljá persónum raddir sínar eru svo ekki af verri endanum og smellpassa í hlutverkin…Egill Ólafsson fer á kostum sem Óðinn, Ágústa Eva sömuleiðis sem Edda … tja, leikararnir standa sig allir frábærlega, ef út í það er farið…Það var einhver ólýsanleg og yljandi gleði fólgin í því að sitja á frumsýningu þessa stórvirkis í fyrrakvöld…Niðurstaðan er því fullt hús stiga og fimmfalt húrra!“
Leikstjóri myndarinnar er Óskar Jónasson og meðleikstjórar eru Toby Genkel og Gunnar Karlsson. Handritshöfundur er Friðrik Erlingsson og aðalframleiðendur eru Hilmar Sigurðsson og Arnar Þórisson.
Með helstu hlutverk í íslensku talsetningunni fara Atli Rafn Sigurðsson sem Þór, Þórhallur „Laddi“ Sigurðsson sem Mjölnir, Egill Ólafsson sem Óðinn, Ágústa Eva Erlendsdóttir sem Edda, Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem Hel, Ólafur Darri Ólafsson sem Þrymur, Ester Talía Casey sem Freyja, Helga Braga Jónsdóttir sem Mamma, Örn Árnason sem Heimdallur og Þröstur Leó Gunnarsson sem Sindri.