Blóðhefnd undir smásjánni

„Þegar þetta er afstaðið, þá skulum við fara til Bangkok og þá slettum við almennilega úr klaufunum.“

Svo segir í íslensku hasarveislunni Blóðhefnd frá 2012, tilvonandi költ-myndar klakans sem á sínum tíma tók undir 50 manns þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum.

Myndin verður í brennidepli á komandi vikum hjá stjórnendum hlaðvarpsins Poppkúltúr, þar sem Sigurjón og Tómas leggja í átakanlega áskorun. 

Í lýsingu hasarmyndarinnar á skjáleigum kemur fram að innihaldið tækli „brennandi málefni í íslensku samfélagi“ – en þessi málefni verða grandskoðuð á næstu 52 vikum í sérstökum aukaþætti Poppkúltúrs.

Þá er fyrsti í Blóðhefnd hafinn, eins og heyra má að neðan, en þar er átakið kynnt auk yfirferðar á mögnuðum söguþræði verksins sem er til umræðu. Fyrstu viðbrögð, almennar væntingar og geðheilsa þáttastjórnenda fer þá hressilega undir smásjánna.

Myndin fjallar um glæpagengi sem tengjast mannsali á Íslandi og hvernig slík neðanjarðarstarfsemi getur haft skelfileg ítök og afleiðingar inn í venjulegar íslenskar fjölskyldur. Trausti snýr heim eftir sjö ára fjarveru, en kemst þá að því að bróðir hans er flæktur í dauðans alvöru… 

Atburðarásin vindur upp á sig og afleiðingarnar verða hryllilegri en nokkurn hefði órað fyrir. Dauði er við hvert fótmál og Trausti fyllist hefndarþorsta. Í leit að réttlætinu kynnist hann Maríu sem er ung kona í ánauð. Trausti verður að taka á öllu því sem hann á, til að bjarga Maríu og hefna fyrir fjölskyldu sína. 

Það er Ingó Ingólfsson sem skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið.