Bíóin loka ekki vegna veirunnar: Aldrei fleiri en 100 manns í sal

Í ljósi frétta af samkomubanni, sem sett verður á aðfaranótt mánudags, hafa margir eflaust velt því fyrir sér hvort til standi að loka kvikmyndahúsum á Íslandi í óákveðinn tíma. Nú hefur það fengist staðfest að kvikmyndahús Senu og Sambíóanna munu halda rekstri sínum áfram en með ákveðnum takmörkunum í ljósi veirunnar. Hið sama gildir einnig um Laugarásbíó, sem er í eigu Myndforms, og Bíó Paradís.

Umrædd kvikmyndahús hyggjast fara að tilmælum stjórnvalda og gera viðeigandi ráðstafanir, til dæmis með því að hafa rúmlega tveggja metra bil á milli sæta og tryggja að fjöldi gesta og starfsfólks verði aldrei meiri en 100 manns á sama tíma. Þar að auki verður tryggt að aðgengi að handþvotti og handspritti verði gott.