Bíóbíllinn á RIFF: „Með þessu móti náum við til allra landsmanna“

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF), verður haldin í sautjánda sinn dagana 24. september til 4. október. Þessi hátíð verður þó nokkuð frábrugðin fyrri hátíðum og verða myndirnar allar aðgengilegar á netinu á riff.is. Hrönn Marinósdóttir sagði í viðtali við RÚV í gær að þetta sé vissulega afleiðing kórónuveirunnar en á móti verður auðvelt að ná til fleiri landsmanna.

„Við erum að nota mjög flott umsjónarkerfi, gæðakerfi, til þess að sýna myndir.

Miðaverð er mjög lágt, en með þessu móti náum við til allra landsmanna og erum mjög stolt af því að geta boðið RIFF-myndirnar fyrir alla þá sem búa úti á landi, og ekki síst fyrir þá sem eiga ekki heimangengt, eru á spítala, í fangelsi eða hvað sem er,“ segir Hrönn. Tekur hún þá einnig fram að helstu myndirnar verða þó sýndar í Bíó Paradís og Norræna húsinu, en þar verður mjög takmarkað sætaframboð.

Önnur nýjung í ár er bíóbíllinn svokallaði sem fer um allt land, en í þessum bíl verður hægt að horfa á myndir á hátíðinni. Hrönn segir þessa hugmynd vera liður í því að RIFF sé fyrir alla.

Dagskrá hátíðarinnar verður að vanda vegleg, fjölbreytt og í takt við umræðuna í samfélaginu. Hinn þekkti dagskrárstjóri Frédéric Boyer fer fyrir dagskrárnefnd RIFF í ár. Hann hóf feril sinn á vídeóleigu í París og er í dag listrænn stjórnandi Tribeca kvikmyndahátíðarinnar í New York og Les Arcs European Film Festival sem eru meðal þekktustu kvikmyndahátíða heims. Hann hefur einnig verið aðal dagskrárstjóri Director’s Fortnight hluta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.

Áhersla hefur verið lögð á að sýna vandaðar, evrópskar kvikmyndir á hátíðinni og verður því fylgt sérstaklega eftir í ár í tilefni þess að í desember verða EFA Evrópsku kvikmyndaverðlaunin veitt í Hörpu. Ætlunin er að byggja brú yfir til EFA með því að sýna myndir fram í desember þegar verðlaunin verða veitt og stendur RIFF því yfir í um þrjá mánuði í ár.