Í undirbúningi er uppsetning á bílabíói í Borgarnesi. Verður það mánudaginn 30. mars klukkan 20:00 á plani við reiðhöllina Faxaborg, rétt ofan við Borgarnes. Á dagskrá er kvikmyndin Nýtt Líf, fyrsta kvikmynd þríleiksins um Danna og Þór eftir Þráin Bertelsson. Í þessari mynd reyna þeir fyrir sér í fiskiðnaðinum.
Bíóið verður opið öllum á meðan pláss leyfir á bílaplaninu. „Fólk er beðið um að virða náungann og halda sig í sínum bílum á meðan á viðburði stendur og fara eftir þeim reglum og viðmiðum sem almennt eru settar af hálfu Heilbrigðisráðuneytis og Almannavarna,“ segir í tilkynningu fyrir viðburðinn.
„Við ákváðum að fara í þetta verkefni til að skapa eitthvað spennandi og skemmtilegt fyrir fólk á svæðinu til að stefna að, þar sem öll umræða snýst meira og minna um COVID-19 veiruna, aðstæður og afleiðingar,“ segir Sigthora Odins, sem stendur að bílabíói sem haldið verður á mánudaginn.
„Heimilislíf hefur raskast hjá flestum, íþróttastarf hefur lagst niður svo það er lítið um að vera fyrir yngri kynslóðina nema skóli eða fjarnám. Þetta er okkar tilraun til að hlúa að náunganum og skapa viðburð sem áhugasamir geta hlakkað til að upplifa.“