Til þess að kóróna umfangsmestu umfjöllun kvikmyndir.is af RIFF frá upphafi, höfum við pennarnir á síðunni ákveðið að velja uppáhaldsmyndirnar okkar af hátíðinni. Við höfðum ekkert samráð að öðru leyti um hvaða myndir yrði skrifað um, en þar kennir ýmissa grasa.
Axel – Jagten
Tvímælalaust besta kvikmyndin sem ég sá á RIFF og frábær lokahnykkur fyrir hátíðina. Mads Mikkelsen sýnir og sannar að hann er ekkert lamb að leika við og hefur engu gleymt. Þeir Mikkelsen og Vinterberg eiga skilið einhvers konar stórverðlaun fyrir hreðjarnar að tækla viðfangsefnið svona fagmannlega frá þessu sjónarhorni og vekja upp blýþungar samfélagslegar spurningar. Magnaður leikhópur, mögnuð leikstjórn, og einfaldlega mögnuð kvikmynd, klárlega ein besta á þessu ári. Ef Jagten verður ekki tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd á næsta ári mun ég kaupa hatt, sjóða hann, og éta hann eins og ég væri Werner Herzog í skóbúð.
Inga – Pink Ribbons
Besta myndin sem ég sá á RIFF er ekki endilega Pink Ribbons Inc en það er myndin sem opnaði augu mín meira en nokkur önnur. Á hverju ári í októbermánuði er árveknisátak Bleiku Slaufunnar, þetta þekkja allir en það sem ekki allir vita er að í gegnum árin hefur átakið markaðsvæðst og mörg fyrirtæki nota þetta til að græða. Dæmi eru tekin í myndinni um fyrirtæki eins og American Express sem fyrir nokkrum árum fór af stað með herferðina „Every dollar counts” eða „Hver dollari skiptir máli” þar sem þeir voru að gefa pening til krabbameinsrannsókna í hvert skipti sem viðskiptavinur straujaði kort frá þeim, það sem þeir gleymdu að nefna var að þeir voru að gefa penní og aðeins eitt penní í hvert skipti sem kort var straujað, það skipti engu máli hvort fólk var að kaupa fyrir tugi þúsunda eða fyrir einn dollara, aðeins eitt penní fyrir hverja færslu.
Annað dæmi er Yoplait jógúrt sem er með herferðina „Save lids to save lives” þar sem fólk á að senda þeim lokin af jógúrtunum þeirra, heil 10 sent fyrir hvert lok sem þau fá sent til baka fara til krabbameinsrannsókna. Er ekki auðveldara að leggja bara beint inn pening í staðinn fyrir þetta vesen að senda inn lok fyrir svona litla upphæð? Markaðsvæðingin verður stærri og meiri á hverju ári, þú getur keypt hrærivél, fötu af KFC kjúkling, plastpoka og margt fleira til að styrkja brjóstakrabbameinsrannsóknir og krabbameinsfélög en fólk kaupir oft í blindni án þess að spá í því hversu mikið af þessum peningum fer til góðra málefna og hversu mikið fer beint í vasann hjá fyrirtækjunum. Það getur hvaða fyrirtæki sem er sett bleiku slaufuna á sína vöru án þess að skuldbinda sig til að gefa pening til góðs málefnis, það er ekkert sem stoppar það. Hugsið aðeins um hversu fáránlegt það er.
Það var einnig sláandi að sjá í myndinni að snyrtivörufyrirtæki eins og Esteé Lauder og Revlon, sem taka þátt í átakinu með því að selja varning eins og bleikt gloss til styrktar krabbameinsrannsóknum, nota krabbameinsvaldandi efni í vörurnar sínar. Er hægt að vera meiri hræsnari? Esteé Lauder og tímaritið Self hófu árveknisártakið með bleiku slaufunni en það vita ekki allir að hugmyndinni var stolið frá konu að nafni Charlotte Haley sem bjó til bleikar slaufur í höndunum í stofunni heima hjá sér, hennar slaufur voru ferskjubleikar og þegar hún neitaði að vinna með Esteé Lauder og Self var breytt litnum í Hello Kitty bleika litinn sem við þekkjum í dag til að forðast málsókn. Ég mæli með að fólk hugsi aðeins á gagnrýnan hátt áður en það kaupir bleika vöru haldandi að það sé að styrkja gott málefni, einnig er gott að kíkja á síðuna http://thinkbeforeyoupink.org og lesa sér betur til um hvernig þetta virkar allt saman.
Árveknin er góð en ekki láta hafa ykkur að féþúfu.
Þorsteinn – Searching for Sugar Man
Það sem kom mér mest á óvart við hátíðina í ár var hve mér þótti heimildamyndir hennar bera af. Góð heimildamynd getur gert hluti sem leiknar myndir eiga ekki möguleika á, vegna fastari tengingar sinnar við raunveruleikann. Myndirnar Indie Game: The Movie, Comic Con Episode IV: A Fan’s Hope, Freddie Mercury – The Great Pretender, og Chasing Ice fannst mér öllum takst að segja magnaðar sögur úr alvöru lífsins. Seaching for Sugarman bar samt áberandi af.
Áður en lengra er haldið er best að taka fram, ég vissi mjög lítið um myndina áður en ég fór á hana, og þannig verður hennar best notið. Ekki googla hana. Settu hana beint á “must-see” listann. Sjálfur er ég i ákveðinni krísu því mig langar að mæla með myndinni við alla sem ég þekki, án þess að segja neitt um hvað hún fjallar. Ef þú vilt upplifunina alveg óspillta, hættu þá að lesa. Fyrir hina get ég þó gefið forsmekkinn. Searching for Sugarman er ein af þessum ótrúlegu sönnu sögum sem sanna lögmálið, “ef það getur gerst, mun það gerast – sama hversu ólíklegt það er”. Myndin fjallar óbeint um kúgunina og ritskoðunina á Apartheid tímanum í Suður-Afríku, töframátt tónlistar til sameiningar heillar kynslóðar, og hin umbyltandi áhrif sem tilkoma internetsins hafði á samskipti í heiminum. Meira segi ég ekki.
Ég vona að þú látir þér þessar upplýsingar nægja og reynir að sjá myndina eins fljótt og þú getur. Googlaðu á eigin ábyrgð. Reyndar er líklega helsti galli myndarinnar sá, að hún er beinlínis hönnuð fyrir áhorfendur sem þekkja ekki sögu viðfangsefnis hennar. Sá galli hafði ekki áhrif á mig, og því gef ég myndinni fullt hús fyrir þá mögnuðu upplifun sem hún veitti mér.
Þráinn – Stuttmyndasmiðja RIFF
Hér er ekki um að ræða ördóm einnar myndar heldur örstutta umfjöllun um Stuttmyndasmiðju RIFF sem undirritaður var svo heppinn að fá að fylgjast með í ár. Ljóst er að framtíðin er björt þegar kemur að okkar yngsta kvikmyndagerðarfólki, en á RIFF fengu sjö grunnskólar tækifæri til þess að búa til stuttmyndir í samvinnu við Myndver grunnskólanna. Myndir skólanna voru svo sýndar við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís þar sem þátttakendur fengu viðurkenningu fyrir störf sín.
Stuttmyndavinnslan er greinilega mikill skóli fyrir þetta unga kvikmyndaáhugafólk og það er von að Stuttmyndasmiðja RIFF sé komin til að vera, en þetta er í fimmta sinn sem smiðjan er haldin. Flestar myndirnar voru framúrskarandi á einhvern hátt, hvort sem um er að ræða kvikmyndatöku, handritsgerð eða leik og það er gaman að sjá hversu mikill áhugi er á kvikmyndagerð hjá grunnskólum landsins. Ég hvet skólana eindregið til þess að senda myndirnar inn í keppnir við fyrsta tækifæri, en margar skemmtilegar keppnir verða haldnar strax á næsta ári. Ég læt bestu stuttmynd Kvikmyndasmiðju RIFF í ár (að mínu mati) fylgja með hér fyrir neðan.
Laugalækjarskóli – 73 sprungur from myndver on Vimeo.
Hvaða myndir fannst ykkur bestar á RIFF? Hvaða viðburðir stóðu uppúr?