Svarta kómedían Beetlejuice Beetlejuice fór töluvert fram úr væntingum í aðsókn víða um heim og þá ekki síst vestanhafs. Þar halaði framhaldsmyndin inn um 110 milljónum bandaríkjadollara og er þar með þriðja stærstu opnun ársins (á eftir Deadpool & Wolverine og Inside Out 2) og stærsta helgaropnun kvikmyndar úr smiðju leikstjórans Tim Burton.
Áhorfendur og gagnrýnendur virðast í heildina og að megninu til hæstánægðir með endurkomu Djússins.
Beetlejuice Beetlejuice skaust einnig í efsta sætið á Íslandi og hafa um 2.700 manns séð myndina frá frumsýningu.
Fyrsta myndin kom 1988
Upprunalega kvikmyndin kom út árið 1988 við gífurlegar vinsældir en Beetlejuice Beetlejuice gerist í nútímanum. Eftir óvæntan fjölskylduharmleik snúa þrjár kynslóðir Deetz fjölskyldunnar aftur heim til Winton River. Líf Lydiu (Winona Ryder), sem enn er ásótt af Betelgeuse (Michael Keaton), fer allt á hvolft þegar uppreisnargjörn unglingsdóttirin Astrid (Jenna Ortega) finnur dularfullt módel af bænum á háaloftinu og gáttin inn í handanheima opnast fyrir slysni. Nú er aðeins tímaspursmál hvenær nafn Betelgeuse er nefnt þrisvar í röð og þá mun hinn stríðni púki snúa aftur.
Ljósvíkingar koma sterkir inn
Ljósvíkingar veittu Michael Keaton og félögum ágæta samkeppni þessa helgi og opnaði kvikmyndin í öðru sæti. Í kringum 1.300 manns sáu hana en með forsýningum er hún komin hátt í 2.300 gesti.
Myndin fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka fiskveitingastað í heimabæ sínum yfir sumartímann. Þegar þeir fá óvænt tækifæri til að hafa veitingastaðinn opinn árið um kring tilkynnir Björn að hún sé trans kona og muni framvegis heita Birna. Þessar breytingar reyna á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir.
Með aðalhlutverk fara Björn Jörundur Friðbjörnsson, Arna Magnea Danks, Sólveig Arnarsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Í öðrum helstu hlutverkum eru Helgi Björnsson, Hjálmar Örn Jóhannsson, Vigdís Hafliðadóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Pálmi Gestsson og Gunnar Jónsson.
Aðsóknarlista helgarinnar má finna hér að neðan.