Tökur á Man of Steel 2, eða Batman vs. Superman ( opinber titill er enn ekki kominn ) byrja fyrr en upphaflega var áætlað. Lítill menntaskóli í Los Angeles sagði frá því í dag að fótboltaleikur sem spila á nú um næstu helgi verði notaður sem bakgrunnsefni fyrir nokkrar senur í myndinni.
The East Los Angeles College Campus News sagði frá því að tökulið myndarinnar, sem leikstýrt er af Zack Snyder, myndi taka upp nokkrar senur á laugardaginn í hálfleik í leik á milli East Los Angeles College og Victor Valley College. ELAC leikvangurinn mun verða í „hlutverki“ heimavallar Gotham City University.
Warner Bros kvikmyndaverið hefur beðið áhugasama Los Angelesbúa að koma og taka að sér hlutverk aukaleikara í myndinni en 2.000 manns munu sjást í tökunum á áhorfendapöllum.
Aukaleikararnir munu fá stuttermaboli í Gotham litunum svörtum og gylltum.
Samkvæmt ELAC fréttamiðlinum þá mun tökulið myndarinnar taka þrjár útgáfur af þremur mismunandi senum. Slash Film kvikmyndavefurinn segir að ólíklegt sé að aðalstjörnur myndarinnar, Ben Affleck, sem leikur Batman, eða Henry Cavill, sem leikur Superman, verði í tökunum.
Myndin verður frumsýnd árið 2015.