Ein dáðasta breska sakamálasería seinni tíma, BBC serían Luther, með Idris Elba í titilhlutverkinu, verður endurgerð í Bandaríkjunum af sjónvarpsarmi 20th Century Fox kvikmyndaversins.
Handritið skrifar höfundur upprunalegu þáttanna, Neil Cross, sem einnig er á meðal framleiðenda. Elba sjálfur verður einnig með í að framleiða þættina.
Sýndar voru þrjár seríur af Luther á BBC og fjölluðu um John Luther, sem Elba lék, eitursnjallan rannsóknarlögreglumann í morðdeild sem þó oft dansaði á jöðrum þess löglega.
Cross ákvað að hætta með seríuna eftir þrjár þáttaraðir, eða 14 þætti, en skildi þann mögulega eftir opinn að búa til bíómynd síðar með Elba í aðalhlutverkinu.
Luther, sem var sýnd í Bandaríkjunum á BBC America sjónvarpsstöðinni, hlaut átta Emmy tilnefningar fyrir bestu stuttseríu, fyrir Elba sem leikara, og fyrir besta handrit og leikstjórn.