Balti rústar dýrinu!

Helgin 13.-15. janúar 2012  markar ansi mikil tímamót fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn, en Baltasar Kormákur er kominn í sögubækurnar sem fyrsti íslenski leikstjórinn til að komast í efsta sæti bandaríska aðsóknarlistans. Nýjasta myndin hans, Contraband, skákaði jafnvel endurútgáfu myndarinnar Fríðu og dýrið (sem kom vægast sagt mikið á óvart, miðað við hversu vel The Lion King 3D-endurútgáfunni gekk í haust).

Þrátt fyrir volgar viðtökur hjá gagnrýnendum tókst Reykjavík-Rotterdam endurgerðinni að hala inn $24 milljónir (framleiðslukostnaður myndarinnar er $40 milljónir cirka), en Beauty and the Beast tók inn $18,4 milljónir, sem er talsvert minna en $30 milljóna opnunin sem Simbi fékk. Kannski er fólk að senda þrívíddinni einhver skilaboð?

Kvikmyndir.is getur ekki annað en óskar Balta innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Þetta þýðir einfaldlega það að Hollywood-stúdíó úr öllum áttum eiga eftir að hafa samband við hann og dæla í hann handritum til að velja úr.

Contraband er síðan frumsýnd á Íslandi næstu helgi, og verður spennandi að fylgjast með því hvort íslendingar vilji borga til að sjá sömu myndina aftur – bara flottari! Það gekk því miður ekki seinast með The Girl with the Dragon Tattoo. Við munum samt tryggja það að fólk kíki á þessa skotheldu hasarræmu enda verðum við með flotta getraun síðar í vikunni.