Íslensk kvikmyndagerð er í brennidepli á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Hátíðin, sem nú er haldin í 37. skipti, hófst síðastliðinn föstudag og lýkur þann 3. febrúar. Alls verða 13 íslenskar kvikmyndir sýndar á hátíðinni.
Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson og Málmhaus eftir Ragnar Bragason munu taka þátt í keppninni um Drekaverðlaunin (Dragon Award).
Baltasar Kormáki verður veitt sérstök heiðurs Drekaverðlaun við verðlaunaathöfn hátíðarinnar, en þetta verður í fyrsta sinn sem slík heiðursverðlaun verða veitt á hátíðinni. Auk þess mun hann halda námskeið sem ber heitið „Masterclass with Baltasar Kormákur“.
Sérstakur fókus verður tileinkaður íslenskum kvikmyndum og verða alls 7 íslenskar kvikmyndir sýndar við þetta tilefni. Kvikmyndirnar 7 sem um ræðir eru Bíódagar eftir Friðrik Þór Friðriksson, 101 Reykjavík eftir Baltasar Kormák, Stormviðri eftir Sólveigu Anspach, Voksne mennesker eftir Dag Kára, Hinn undursamlegi sannleikur um Raquelu drottningu eftir Ólaf Jóhannesson, Sveitabrúðkaup eftir Valdísi Óskarsdóttur og XL eftir Martein Þórsson.
Tvær íslenskar kvikmyndir sem eru nú í eftirvinnslu verða kynntar á hátíðinni á sérstökum kynningarvettvangi sem kallast „Works in progress“. Þær eru París norðursins, nýjasta kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar og Sumarbörn, fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Guðrún Ragnarsdóttir leikstýrir. Kvikmyndirnar tvær verða kynntar sérstaklega fyrir dreifingaraðilum og dagskrárstjórum helstu kvikmyndahátíða.
Þá verða stuttmyndin Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og heimildamyndin Vive la France eftir Helga Felixson og Titti Johnson sýndar á hátíðinni.
Sérstakar umræður um íslenska kvikmyndagerð, „Focus Iceland: A conversation on Icelandic cinema“, munu fara fram á meðan hátíðinni stendur. Umræðunum verður stjórnað af Ara Gunnari Þorsteinssyni kvikmyndagagnrýnanda og Benedikt Erlingsson, Friðrik Þór Friðriksson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir aðalleikona Málmhauss munu halda tölu og taka þátt í umræðunum.
Framleiðandinn Magnús Viðar Sigurðsson verður aðalfyrirlesari á „TV Drama Vision“ fyrirlestrinum, þar sem hann mun fjalla almennt um íslenska sjónvarpsframleiðslu í gegnum tíðina og hvað er framundan í framleiðslu sjónvarpsefnis hjá hinu nýstofnaða framleiðslufyrirtæki Rvk. Studios.
Að síðustu má nefna að tvö íslensk teiti verða haldin á meðan hátíðinni stendur. Þungarokksgleðskapur verður haldinn að lokinni sýningu á Málmhausi og Hjaltalín mun spila í teiti sem kallast einfaldlega „Icelandic Party“. Hjaltalín mun einnig spila samhliða sýningunni á Days of Gray.
Nánari upplýsingar um fókus hátíðarinnar á íslenska kvikmyndagerð má nálgast hér.