Baby er bílstjórinn – Fyrsta stikla úr Baby Driver

Nú þegar nýja Fast & Furious kvikmyndin er rétt handan við hornið, með sínum mögnuðu bílaeltingarleikjum, er gaman að segja þeim sem vilja aukaskammt af bílahasar, frá því að þeir geta byrjað að láta sig hlakka til annars bílahasars, Baby Driver, eftir Hot Fuzz leikstjórann og Ant-Man handritshöfundinn Edgar Wright.  Auk bílaeltingarleikja er að finna í myndinni góðan skammt af gríni og hasar, ef eitthvað er að marka fyrstu stikluna sem kom út í dag.

 

Með helstu hlutverk í myndinni fara Ansel Elgort, Kevin Spacey, Lily James, Jon Bernthal, Eiza González, Jon Hamm og Jamie Foxx.

Myndin segir frá flóttabílstjóranum Baby, sem Elgort leikur, sem elskar tónlist, og er einnig fáránlega góður bílstjóri. Hann tekur að sér eitt lokaverkefni, en óvíst er hvort hyskið sem hann vinnur fyrir leyfi honum að hætta í djobbinu.

„Mig langaði alltaf að gera spennumynd sem væri knúin áfram af tónlist. Það er nokkuð sem er stór hluti af fyrri myndum mínum, og ég fór að pæla í hvernig væri ef aðalpersónan væri að hlusta á tónlist alla myndina í gegn. Þannig að hér hefurðu ungan flóttabílstjóra sem þarf að hafa undirleik við allt sem hann gerir, og þá sérstaklega þegar hann tekur þátt í bankaránum og flóttanum sem fylgir í kjölfarið,“ segir Wright á vefsíðunni FilmStage. „Þetta er spennu – glæpamynd. Hún fyndin á köflum, en hún er ekki gamanmynd. Hún verður verulega spennandi og ógnandi.“

Opinber söguþráður myndarinnar er þessi: Ungur og hæfileikaríkur flóttabílstjóri reiðir sig á undirleik góðrar tónlistar til að verða sá besti í faginu.  Þegar hann hittir draumadísina, þá sér Baby möguleika á að hætta í sínu vafasama starfi, og komast í burtu. En eftir að hafa verið neyddur til að vinna fyrir glæpaforingja, þá þarf hann að mæta afleiðingunum þegar mislukkað rán ógnar lífi hans, kærstunni og frelsinu.

 

Myndin kemur í bíó 11. ágúst nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: