Samkvæmt fréttum af ýmsum vefmiðlum, þar á meðal The Independent, þá hafa upplýsingar um lengd næstu Avengers myndar, Avengers: Endgame, lekið út, og miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir þá verður myndin sú lengsta í Marvel Cinamatic Universe flokknum.
Upplýsingarnar koma af vefsíðu AMC kvikmyndahúsakeðjunnar bandarísku, en þar var gefin upp lengdin þrír klukkutímar og tvær mínútur. Sýningartíminn var síðar fjarlægður af vefsíðunni.
Vilja hafa hlé
Þessi lengd passar við fregnir af prufusýningum sem höfðu farið yfir þriggja klukkutíma markið, en Comic Soon blaðamaðurinn Alan Cerny sagði á Twitter að leikstjórarnir Anthony og Joe Russo væru að spá í að láta vera hlé á myndinni.
Það er þó enginn staðfesting komin á þeirri frétt, en hlé voru algeng í bíó í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld, sérstaklega fyrir langar myndir eins og Gone With The Wind og Doctor Zhivago. Eins og flestir ættu að vita hefur löngum tíðkast hér á Íslandi að hafa hlé í bíó.
Síðast þegar hlé var á Hollywoodmynd í Bandaríkjunum var þegar The Hateful Eight eftir Quentin Tarantino var sýnd, en hún var þrír tímar og sjö mínútur að lengd.
„Sumar kvikmyndir geta verið 90 mínútur, en þér líður eins og þær séu margar klukkutímar,“ sagði Marvel forstjórinn Kevin Feige við vefsíðuna Collider. „Og sumar eru kannski þrír og hálfur tími, en þér finnst hún hafa verið 90 mínútur … og hver einasta útgáfa af Endgame til þessa, og sú sem er að fara í sýningar, er mjög góð.“
Avenger: Endgame kemur í bíó hér á landi 26. apríl nk.