Avatar-dómsmáli gegn Cameron vísað frá

Ríkisdómstóll Kaliforníu hefur vísað frá dómsmáli þar sem leikstjórinn James Cameron var sakaður um að hafa stolið hugmyndum að myndinni vinsælu Avatar.

Avatar-007

Eric Ryder, sem starfaði hjá Cameron, höfðaði málið árið 2011. Hann sagðist hafa eytt tveimur árum í að þróa mynd á vegum fyrirtækis Cameron, Lightstorm Entertainment, sem síðar varð grunnurinn að Avatar. Hann sagðist hafa samið umhverfisvænt handrit að mynd sem kallaðist K.R.Z. 2068 og búið til þrívíddarmyndir og persónur í kringum það.

Dómstóllinn vísaði máli Ryder frá og úrskurðaði að Cameron hafi verið eini höfundurinn að Avatar.

Ryder er ekki sá eini sem hefur höfðað mál gegn Cameron. Gerald Morawski gerði slíkt hið sama. Hann sagðist hafa komið hugmynd á framfæri til Cameron árið 1991 sem líktist Avatar en dómstólar vísuðu því einnig frá.