Assassin´s Creed – Fyrsta stikla!

Fyrsta stikla úr tölvuleikja- og tímaferðalagstryllinum Assassin´s Creed er komin út, en í henni förum við í ferðalag með aðalhetjunni í gegnum minningar forfeðra hans, aftur í aldir.

Stiklan lítur ansi vel út, og það er greinilega von á góðu í desember þegar myndin verður frumsýnd. Ekki sakar að kraftmikil tónlist Kanye West, lagið I am a God, hljómar undir og kyndir undir það sem koma skal.

Leikstjóri er Justin Kurzel og aðalleikarar þau Michael Fassbender og Marion Cotillard, en þau þrjú voru einnig að verki saman í MacBeth í fyrra.

Assassin-Creed-1-620x414
„Ég eyddi mestu tíma mínum í söguna, og svo mannkynssöguna sem þessu tengist.  Ég lagði áherslu á það – frekar en að fara í smáatriðum í gegnum tölvuleikinn. Þetta snerist um spurninguna: Hvernig gerir maður góða kvikmynd úr þessum efnivið,“ sagði Kurzel í samtali við LA Times.

„Varðandi mögulegar framhaldsmyndir þá er það þannig að ef fyrsta myndin gengur vel þá eru möguleikarnir nánast óþrjótandi.“

Aðrir helstu leikarar eru Michael K. Williams, Jeremy Irons, Brendan Gleeson og Ariane Labed.

Myndin fjallar um Callum Lynch sem kemst að því að hann er afkomandi leynilegs leigumorðingjasamfélags, þegar opnað er á minningar sem gera honum kleift að endurlifa ævintýri forföður síns, Aguilar, á 15. öldinni á Spáni. Eftir að hann innbyrðir ótrúlega mikla viðbótarþekkingu og hæfni, þá þarf hann að takast á við Riddararegluna í samtímanum.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 26. desember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan:

Assassins-Creed-poster-620x918