Árni Johnsen í XL kitlu

Kitla fyrir næstu mynd Marteins Thorssonar og Ólafs Darra er komin á veraldarvefinn, en myndin ber nafnið XL og kemur í bíó í janúar á næsta ári. Kitlan er vægast sagt ansi nýstárleg en hún sýnir m.a. Ólaf Darra í annarlegu ástandi (lesist: út úr heiminum).

Ég er að fíla þetta. Við birtum fyrir stuttu plaköt fyrir myndina sem líta ansi vel út og ljóst er að kitlan fylgir sama stíl. XL skartar þeim Ólafi Darra Ólafssyni, Maríu Birtu og Þorsteini Bachmann í aðalhlutverkum, en eins og áður sagði leikstýrir Marteinn myndinni. Marteinn er hvað þekktastur fyrir að hafa leikstýrt Rokland sem skartaði einnig Ólafi Darra í aðalhlutverki, en Rokland kom út í fyrra.

XL er blanda af The Hangover, Fear and Loathing in Las Vegas og Memento. Fjölskyldumaðurinn fyrrverandi, flagarinn óstýriláti og áfengisþyrsti þingmaðurinn Leifur Sigurðarson (Ólafur Darri Ólafsson) er skikkaður í meðferð af vini sínum og yfirmanni, forsætisráðherra Íslands (Þorsteinn Bachmann) – en áður en hann lætur flengja sig opinberlega heldur Leifur vinum sínum matarboð.


Á meðan á því stendur kynnumst við gestum og gestgjafa betur og lærum um dramatíska og grátbroslega fortíð hópsins og sérstaklega ástarsamband Leifs við hina tvítugu Æsu (María Birta Bjarnadóttir) sem jafnframt er vinkona dóttur hans. Eftir því sem Leifur djúsar meira koma fleiri leyndarmál í ljós uns það er tímabært að drífa sig heim, eða hvað? Aðeins þeim sem hafa aldur til að kjósa þingmanninn er boðið í partýið.

Áhugasamir geta einnig nálgast viðtal við leikstjórann og Guðmund Óskarsson, handritshöfund og meðframleiðanda, sem birtist á Stöð 2 hér. Hvað segiði annars, hvernig eruði að fíla kitluna fyrir eina stærstu íslensku mynd næsta árs ?

Stikk: