Tímarnir hafa svo sannarlega breyst og má rekja það í gegnum sögu dægurmenningar. Það er ótvírætt að þeir hafa breyst til hins betra í málum er snúa að kynferðislegri áreitni í skemmtanabransanum, hvort sem það varðar líkamlegt samþykki, andlega kúgun eða annað.
Í ára(tuga)raðir hefur slík hugsun varla tíðkast í heimi Hollywood-kvikmynda. Oftar en ekki hefur ágengni karlmannsins verið afgreidd sem ákveðin eða jafnvel krúttleg.
Hér eru fáein dæmi um áreitni sem víða hefur verið talað um á Internetinu.
Goldfinger (1964)
Kvikmyndir frá sjöunda áratugnum (og fyrr) hafa verið sérlegir sökudólgar. James Bond sker sig enn úr hópnum þegar kemur að kynjamisrétti og kvenfyrirlitningu. Í kvikmyndinni Goldfinger bregður fyrir senu sem jaðrar við kynferðislega árás. Skömmu eftir að njósnarinn hittir Pussy Galore króar hann hana af í hlöðu. Hann grípur utan um hana þegar hún reynir að stíga frá. Hún reynir að ýta honum frá sér en þá gerir hann það sama og hendir sér ofan á hana. Hún sýnir mótspyrnu (og reynir jafnvel að kyrkja Bond) en lætur á endanum undan, sem leiðir til einnar óþægilegustu ástarsenu sem fest hefur verið á filmu.
Blade Runner (1981)
Það eru ýmsar truflandi senur í hinni frægu költ-mynd Ridleys Scott, en það er ein sem er sérstaklega vafasöm. Margar greinar hafa verið skrifaðar um þessa senu þar sem hegðunin er sögð jaðra við nauðgun. Í atriðinu flytur Rick Deckard (Harrison Ford) henni Rachael (Sean Young) þær fréttir um að hún sé vélmenni en ekki mennsk. Á þessari örlagastund ákveður Rick að reyna við hana. Fyrst kemur kossinn en þá reynir hún að bakka frá honum og gengur að dyrunum, en þá gerist hann ofbeldisfullur. Hann kýlir hurðina, grípur utan um Rachael, þrýstir henni upp að glugganum og ákveður að smella á hana öðrum kossi. Hún samþykkir loksins og tónlistin gefur í skyn að þetta augnablik eigi að vera rómantískt.
There’s Something About Mary (1998)
Í þessari rómantísku gamanmynd eru að minnsta kosti þrír karlmenn sem eltast við Mary, leikin af Cameron Diaz. Á endanum er það Ted í túlkun Bens Stiller sem sigrar hjarta dömunnar. Hins vegar er Ted einfaldlega eltihrellir. Hann fer á eitt (misheppnað) stefnumót með henni á menntaskólaárum og þrettán árum síðar ræður hann einkaspæjara til þess að finna hana. Seinna meir tekst honum að heilla Mary og lýgur um að hafa setið um hana. Í millitíðinni féll einkaspæjarinn einnig fyrir henni og reynir að vinna ást hennar, jafnvel þó það þýði að byrla hundinum hennar róandi lyf. Undir lokin eru staðreyndirnar lagðar út og Mary fyrirgefur Ted á þeim forsendum að þráhyggja hans gagnvart henni sé merki um þá ósviknu ást sem hann ber til hennar. „Ég gerði þetta vegna þess að ég hætti aldrei að hugsa um þig,“ segir Ted. „Ég vissi að ef mér tækist ekki að finna þig, að líf mitt yrði aldrei gott á ný.“ Rómantískt eða óhuggulegt? Það er undir ykkur komið að dæma.
Bridget Jones’s Diary (2001)
Bridget Jones er með tvo í takinu: Mark Darcy (Colin Firth) og Daniel Cleaver (Hugh Grant). Hinn síðarnefndi hefur beitt ýmsum skuggalegum brögðum án þess að sé nokkurn tímann talað um það. Við upphaf sambandsins er Daniel yfirmaður hennar. Hann sendir henni klúra og ágenga tölvupósta varðandi stutta pilsið hennar og gegnsæja toppinn. Við lok sambandsins dregur hann Bridget til hliðar og kemur ósmekklega fram við hana, sem leiðir til þess að hún segir upp starfinu. Þetta kemur fram í mynd sem á að heita rómantísk gamanmynd.
The Notebook (2004)
Hér áður var þessi talin ein af rómantískari myndum síðari ára, en nú hefur heimurinn áttað sig á því að Noah – leikinn af Ryan Gosling – er ótrúlega vafasamur. Eina leiðin til þess að fá Allie (Rachel McAdams) til þess að samþykkja stefnumót með sér er að leggjast á miðja götu og hóta að drepa sig nema hún samþykki boðið hans. Vissulega játar hún á endanum, sem vísar meira á tilfinningalega kúgun frekar en hjartnæmt merki.
Passengers (2016)
Í þessari kvikmynd er Chris Pratt um borð í geimskipi á meðal þúsunda farþega sem hvílast í svefnhylkjum. Áætlunin er að hvílast í 120 ár, sem er lengd ferðarinnar, og stendur til að vekja alla þegar áfangastaðnum er náð. Hylkið hjá Pratt bilar og vaknar hann þá langt á undan áætlun. Einmanaleikinn heltekur hann og ákveður hann þá að vekja fríðasta farþegann sem hann finnur – Jennifer Lawrence – en þá eru enn 90 ár eftir af ferðinni. Þetta þýðir að hann er í raun að þvinga hana til þess að eyða lífstíð með sér einum um borð. Í ljósi þess að þetta er Hollywood-mynd verður hún auðvitað ástfangin af honum og þessi ótrúlega sjálfselska ákvörðun er borin fram sem ljúfur, rómantískur verknaður sem kom þeim saman. Myndin hlaut vægast sagt blendin viðbrögð þegar hún var gefin út.