Ánægður með nýja blóðið

Bardagalistakappinn og hasarleikarinn Randy Couture er mjög ánægður með nýju leikaraviðbæturnar í málaliðateymið The Expendables í nýju myndinni The Expendables 4 sem kom í bíó hér á Íslandi nú um helgina.

Í samtali við uinterview segir Couture, sem mætir aftur til leiks í hlutverki sprengjusérfræðingsins Toll Road, að einungis fjórir upprunalegir málaliðar séu eftir í teyminu. Því hafi verið orðin æpandi þörf á nýju blóði í teymið. „Augljóslega þá eru aðeins fjórar af gömlu Expendables hetjunum eftir, það er ég, Dolph [Lundgren], [Jason] Statham og [Sylvester) Stallone. Þannig að við teygðum okkur út eftir nýjum hópi. Einn þeirra var 50 Cent sem ég hef unnið með áður og ber mikla virðingu fyrir. Þá er það Megan Fox sem, var til í tuskið. Og svo var það Andy Garcia, sem ég hef dáðst að alla tíð og hefur gert frábæra hluti í gegnum tíðina. Það var reglulega gaman að vera nálægt og fylgjast með honum að störfum.“

Statham leiði áfram

Í The Expendables 4, sem einnig gengur undir nafninu Expend4ables, koma saman á ný Sylvester Stallone í hlutverki Barney Ross, Jason Statham sem Lee Christmas og Dolph Lundgren sem Gunner Jensen, auk Randy Couture sem Toll Road. Og þar sem hinir hafa yfirgefið liðið, Arnold Schwartzenegger þar á meðal, og jafnvel útlit fyrir að Stallone sé að hætta og ætli að láta Statham eftir að leiða hópinn til nýrra ævintýra, var þörf á nýjum andlitum í seríuna.

The Expendables 4 (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn4.8
Rotten tomatoes einkunn 13%

Með öll þau vopn í höndunum sem þeir geta komist yfir og getuna til að nota þau er The Expendables hópurinn síðasta von heimsins. Þeir eru teymið sem kallað er á þegar öll önnur úrræði hafa brugðist. En nýir meðlimir hafa nýjar venjur og aðferðir og "nýtt blóð" fær nú...

Transformers stjarnarn Megan Fox og rapparinn og leikarinn Curtis „50 Cent“ Jackson mæta á svæðið og einnig hinn Óskarstilnefndi Andy Garcia, sem leikur CIA leyniþjónustumann.
Þá leika þau Eddie Hall, Tony Jaa, Iko Uwais, Sheila Shah, Jacob Scipio og Levy Tran einnig í hasarnum.
Leikstjóri er Scott Waugh. Sagan gengur í aðalatriðum út á að málaliðateymið flækist inn í kjarnorkuátök milli Rússlands og Bandaríkjanna, sem er óhugnanlega nálægt því sem er að gerast í heimsmálunum nú um stundir.

Þorpari í vopnaviðskiptum

The Raid stjarnan Uwais leikur aðal þorparann. Hann er fyrrum hershöfðingi með eigin málaliðaher og stundar einnig vopnaviðskipti. Expendables gengið vill stöðva hann með öllum ráðum og helst að sprengja allt í tætlur eins og þeirra er von og vísa.

Um brottför Stallone frá seríunni er það vitað að hann sagði í Instagram færslu: „Þetta verður síðasti dagurinn minn.“ Og einnig: „Ég elska þetta, en það er alltaf ljúfsárt að hætta einhverju sem þú hefur tengst svo lengi – ég held það séu komin 12 ár – og tilbúinn að rétta keflið yfir í hinar mjög hæfu hendur Jason Statham.“